149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég ætla í þessari ræðu að fjalla aðeins um nokkrar spurningar og vangaveltur, 17 eða 18 talsins, sem ég hef listað upp. Þær kunna að vera fleiri og mun þá bæta þeim við.

Fyrst vil ég nefna að það er hreint með ólíkindum í ljósi þess að í fréttum í dag sjáum við að undirbúningur er á fullu við að framleiða og leggja rafstreng til Íslands burt séð frá því hvort það verði á morgun eða eftir fimm ár, sjö ár eða hvað það verður, þá er sá undirbúningur augljóslega í gangi og ljóst að þrýst er erlendis frá á að þetta verði að veruleika. Á sama tíma vitum við að í áliti þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna er varað við því að einkaaðilar, lögaðilar, geti mögulega höfðað mál gegn íslenska ríkinu þrátt fyrir þær tilfæringar sem stjórnarmeirihlutinn hefur uppi.

Þar segir m.a. um raforkutengingar, með leyfi forseta:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis“ — segjum að það sé fyrirtækið sem um ræðir í fréttum í dag, Atlantic Superconnection, sem reyndar er með einhverja talsmenn eða umboðsmenn á Ísland, eins og kom líka fram í dag — „þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Við erum að tala um og höfum það fyrir framan okkur að fyrirtæki á Bretlandseyjum sækir mjög fast að þetta verði að veruleika. Ætlar stjórnarmeirihlutinn þá að segja, og fylgjendur hans, samfylkingarflokkarnir allir, að engin hætta verði og það sé bara allt í lagi að innleiða orkupakka þrjú, fyrirvarinn sé svo góður, og að langt sé í sæstreng, það sé enginn að pæla í því, og að við þurfum ekki að hafa nokkrar áhyggjur? Þetta er hreint með ólíkindum.

Ég ætla að leyfa mér að tengja þetta við nokkrar af þeim spurningum sem ég hef uppi varðandi innleiðinguna núna og líka varðandi orkupakka fjögur, sem ég benti á í síðustu viku — ætli það hafi ekki verið 24. eða 25. maí sem fréttir birtust á vefsíðu Evrópusambandsins um að loksins — loksins var kannski ekki orðið sem var notað en að nú væri ferlinu lokið og orkupakki fjögur, vetrarpakkinn svokallaði, væri orðinn að veruleika.

Þeir kalla þetta reyndar „Clean energy for all Europeans“, með leyfi forseta, þ.e. hreina orku fyrir alla Evrópubúa, sætt og fallegt nafn. Við Íslendingar eigum nóg af hreinni orku. En að þeir sem eru fylgjandi málinu skuli ekki vilja sjá heildarmyndina, vilji ekki sjá hvaða áhrif orkupakki fjögur hefur til viðbótar orkupakka þrjú, þótt ekki væri nema út frá fréttunum í dag um sæstrenginn og mögulega málshöfðun, þótt ekki væri nema að komast til botns í því hvað þessar auknu valdheimildir ACER stofnunarinnar þýða. Hvað þýða þær í orkupakka fjögur? Hvaða áhrif hefur það á túlkun ESA á samningnum fari fyrirtæki, eins og fyrirtækið Atlantic SuperConnection, í mál við íslenska ríkið?

Ég spyr líka: Er búið að óska eftir því að sérfræðingarnir sem skrifuðu skýrslu fyrir orkupakka þrjú skoði orkupakka fjögur? Hvers vegna ekki að gera það þegar plaggið liggur fyrir framan okkur, þegar fyrir liggur hvað á að gera?

Þetta er svo óábyrgt, virðulegur forseti, að maður hefði ekki trúað því að eiga eftir að upplifa það hér. Ef það er þannig að með þessu nýja fyrirbæri sem orkupakki fjögur er, að verið sé að færa aukin völd til erlendrar stofnunar — hver eru þau? Hvernig verða þau túlkuð? Hvar eiga þau sér stoð eða hvar verða þau sett og útfærð á Íslandi ef þörf er á? Mun orkupakki fjögur kalla á annan stjórnskipulegan fyrirvara? Að menn velti fyrir sér þá, þeir sem vilja keyra þetta í gegn, hvort sömu æfingar þurfi til að koma þeim fleiri tilskipunum eða fleiri reglugerðum Evrópusambandsins hér í gegn?

Þá veltir maður fyrir sér: Ef það er eitthvað þar sem kallar á að menn setji stjórnskipulegan fyrirvara, að aflétta þurfi hér í þinginu, ef svo er, af hverju er það? Það hlýtur að vera vegna þess að það er eitthvert áframhaldandi vafamál um stjórnarskrána í þeim pakka.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.