149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Það er margt skrýtið í kýrhausnum og eitt af því eru þau sjónarmið sem stangast svona rækilega á hjá stuðningsmönnum innleiðingar þessa orkupakka. Hv. þingmaður lýsti því ágætlega að skilningurinn er nægjanlegur og þarf ekkert að vera mjög formlegur í aðra áttina en í hina áttina er skilningurinn enginn og það er fullyrt að við setjum EES-samninginn í uppnám með því að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, í þann farveg sem var skrifaður inn í samninginn strax í byrjun.

Það er auðvitað erfitt við svona rök að eiga, þetta er svolítið eins og að spila borðtennis við hraunaðan vegg, maður veit ekkert í hvaða átt kúlan skýst, er ekki í neinu samhengi við það úr hvaða átt hún kom. Þetta er hluti af því þegar menn handvelja rökin eftir því hvernig þau passa við hverju sinni, það er alltumlykjandi hvað þetta atriði varðar. Það er fráleitt og stenst enga skynsemisskoðun að varðandi eitt atriðið sé skilningurinn alger hjá fulltrúum Evrópusambandsins og það þurfi bara einhverja fréttatilkynningu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins til að skjalfesta það nægjanlega en í hina röndina megi menn ekki einu sinni íhuga að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar á grundvelli 102. gr. Þetta stenst enga skynsemisskoðun.