149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:45]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir spurninguna. Að mínu viti er best að bíða þar til niðurstaða er komin í málið í Noregi, alla vega að sjá hvort Noregur muni taka málið fyrir. Ég held að 23. september snúist um það hvort málið verði tekið þar upp og ég á von á því að það verði gert þar sem fyrirvararnir átta finnast ekki.

En síðan hef ég heyrt að hæstv. ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hafi vakið máls á því að væntanlega verði hægt að fresta málinu til haustsins hér. Það má kannski segja að það sé nokkuð gott hjá hæstv. ráðherra að vekja máls á því og kannski var það vegna þess að hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir því að uppi er stóralvarleg staða í Noregi og ef við fetum okkur ekki áfram á réttri braut getum við verið í sömu stöðu og þeir. Ég sé þetta fyrir mér þannig að okkur beri að bíða algerlega fram yfir 23. september og síðan yrði þá staðan tekin á ný til að sjá hvað hægt væri að gera og hvað hægt væri að vinna með upp frá því.