149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

umræða um þriðja orkupakkann.

[13:37]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Hér hófst umræða um þetta dagskrármál. rétt upp úr kl. 11 í morgun þannig að hv. þingmönnum Miðflokksins býðst nú að ræða það í eina tíu klukkutíma á björtum degi. Ekki geta þeir kallað það að verið sé að fela þá umræðu eða að þar sé næturfundur á ferð.

Ég hef heyrt hugmyndir þingmanna Miðflokksins um að leysa þetta mál með því að þeir fái dagskrárvaldið í sínar hendur. Þeir hafa gert alveg geysilega freistandi tilboð um að þingmenn Miðflokksins fái dagskrárvaldið á Alþingi. Og það er auðvitað eðlilegt að þeir geri kröfu til þess þar sem segja má að þeir hafi á vissan hátt tekið hér völdin.

Varðandi það að þingmenn kunni að vera í einhverri mótsögn við vilja hluta þjóðarinnar þá byggjum við á fulltrúalýðræði. Þingmenn kjörnir á Alþingi Íslendinga á þessu kjörtímabili sóttu sér umboð til þjóðarinnar í síðustu alþingiskosningum og endurnýja það svo eftir atvikum ef þeir hyggja á áframhaldandi störf á þessum vettvangi. En þeir sækja ekki umboð í skoðanakannanir frá degi til dags.

En þingmenn geta vissulega ekki axlað ábyrgð fyrr en þeir fá kost á því að taka afstöðu til mála, greiða atkvæði. Þannig tjáir Alþingi vilja sinn. Þannig verður hann endanlegur. Þannig eru leikreglur lýðræðisins og á þeim grunni byggjum við allt okkar starf. Þeir sem þurfa að hugsa sinn gang eru þeir sem koma lengi og mikið í veg fyrir það að þingið geti starfað samkvæmt sínum eigin leikreglum og leikreglum þingræðisins og lýðræðisins.

Þetta er allt og sumt sem forseti hefur leyft sér að minna á í þessum efnum og telur að tilmæli hans til hv. þingmanna Miðflokksins hafi verið hógvær. En þau hafa hingað til engan árangur borið, það er rétt.