149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna og að hafa loksins farið í Kýpurumræðuna af alvöru. Maður er búinn að bíða svolítið eftir þessu ágæta dæmi. Það er nauðsynlegt, held ég, að heimfæra það, ef þingmaðurinn vildi vera svo vænn og hefur til þess tíma að teikna upp sambærilegar aðstæður og hann lýsti hér varðandi Ísland. Ég minni á að fyrirtæki sem vill leggja sæstreng til Íslands mun sjálfsagt geta það og ríkið mun ekki geta stöðvað það með góðum hætti, miðað við það sem við höfum séð undanfarið.

Er það þá þannig að þrátt fyrir öll varnaðarorðin og orðin um að þessi ACER-stofnun muni ekki ná til Íslands muni hún samt sem áður gera það með óbeinum hætti? Vegna þess að þó svo að ESA eigi að fjalla um deilumál eða kveða upp úr varðandi Ísland, er það þá ekki rétt munað hjá mér, hv. þingmaður, að það er vandlega skrifað inn í aðferðafræðina hvernig ACER mun koma að lausninni? Og væntanlega mun þá þessi ACER-stofnun beita sömu rökum eða reyna að fá ESA til að taka ákvarðanir sem gera lausnirnar á markaðnum einsleitar, því að það er yfirlýst stefna, ekki bara stofnunarinnar eða verkefna hennar, heldur Evrópusambandsins að sjálfsögðu. Getur þingmaðurinn gæti heimfært þetta upp á Ísland? Það kallar kannski á lengri ræðu en eitt andsvar. En svo er það einnig varðandi þá þróun sem ACER mun hafa versus ESA hins vegar …