149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

losun gróðurhúsalofttegunda.

[09:52]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er fyrirséður samdráttur í hagkerfinu og samhliða því er verið að boða samdrátt í ríkisrekstrinum. Niðurskurður er eðlileg og fyrirsjáanleg afleiðing af því en á sama tíma sjáum við fram á loftslagsvá og hamfarahlýnun. Aðgerðir Íslands í loftslagsmálum skipta verulegu máli. Þótt þær séu kannski litlar í stóra samhenginu snúast þær ekki síst um að sýna gott fordæmi úti í heimi. Við vitum líka að ákveðin hefð er fyrir því að þegar skera þarf niður eru umhverfismál oft meðal þess sem mest er skorið niður. Það er kannski skiljanlegt að einhverju leyti þar sem loftslagsvá er illa áþreifanlegt og flókið vandamál og fólk vill kannski leggja meiri áherslu á að einbeita sér að því að viðhalda framlögum til velferðarmála og annað.

Mér finnst því ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra, ekki síst þar sem við erum að fara að tala um nýja fjármálastefnu síðar í dag, hvort hann hafi einhverjar tryggingar fyrir því að árangri Íslands í loftslagsmálum og niðurskurði á CO2-losun verði ekki teflt í tvísýnu með niðurskurði núna. Ef svo er, hvaða tryggingar eru fyrir því? Hvernig getum við tryggt að við náum þessum árangri áfram? Ef einhvern veginn þarf að takmarka fjármuni, hvernig myndi hæstv. ráðherra vilja forgangsraða þeim verkefnum sem þarf að vinna?