149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir ræðuna. Ég staldraði við þessar stóru spurningar sem við ættum alltaf að spyrja okkur, ekki síst í því máli sem við erum að ræða hér, um breytingar á gildandi fjármálastefnu hæstv. ríkisstjórnar. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef þetta er ekki alveg rétt eftir haft, en stóra spurningin sem hv. þingmaður varpaði hér fram er: Er ekki hægt að bregðast við öðruvísi en að stokka upp fjármálastefnuna?

Það er það sem við erum í raun og veru að kljást við. Það er vissulega æskilegt að stefna haldi. Af hverju er æskilegt að stefna haldi, stefna sem við settum fyrir 14 mánuðum? Jú, af því að fjármálaáætlun, sem er líka til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd, hvílir á stefnu og fjárlögin hvíla jafnframt á stefnu eins og lögin mæla fyrir um. Hagspár sem okkur ber að fara eftir samkvæmt lögunum hafa hins vegar breyst. Það eru brostnar forsendur. Það er tekjusamdráttur. Við getum deilt um hvort hann er fyrirséður eður ei, en það er verulegur tekjusamdráttur. Þetta er kallaður framboðsskellur af hagfræðingum og gerist með þessum hætti. Þetta eru 40 milljarðar plús/mínus. Hér erum við búin að vera í spennitreyju sem allir hafa viðurkennt og er viðurkennt í greinargerð með þessu máli.

Lykilspurningin er: Er ekki mikilvægast að við tökum jafnframt á þessu (Forseti hringir.) af skynsemi um leið og við virðum grunngildi stefnunnar og höldum okkur við áform um innviðauppbyggingu?