149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir hressandi, kjarnyrta ræðu, ekki í fyrsta sinn sem hv. þingmaður talar almennilega íslensku svo hægt er að skilja og heyra um langan veg. Það hefur komið í ljós í þessari umræðu, og það er kannski líka bara pólitískur veruleiki sem ekki síst ríkisstjórnin þarf að átta sig á í vinnubrögðum og nálgun gagnvart stjórnarandstöðunni, að það eru margir flokkar í stjórnarandstöðu og við höfum mismunandi áherslur til að mynda í efnahagsmálum.

Ég leyni því ekki að við í Viðreisn fórum ekki út með einhvern mikinn loforðapakka, alls ekki. Við lögðum ríka áherslu á að sýna fram á fjármögnun hverrar einustu krónu í þeim loforðum sem við vildum setja fram í kosningabaráttu okkar. En það var eitt sem við stóðum sérstaklega vörð um í velferðarkerfinu. Það var einmitt staða aldraðra og öryrkja og við tókum sérstaklega utan um, ekki bara heilbrigðismálin heldur líka félagsmálin.

Nú er það svo að við stöndum frammi fyrir þessari endurskoðun ríkisstjórnarinnar og það er hægt að gagnrýna hana mjög harkalega fyrir það. Við höfum gert það hér í dag og ég mun gera það á eftir, ekki síst af því að ég tel ríkisstjórnina hafa sett kíkinn fyrir blinda augað þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir, m.a. fjármálaráðs, Viðskiptaráðs o.fl. sem bentu á að þetta væri ekki rétt leið, skynsamleg leið í miðri uppsveiflu, að ekki bara stórauka útgjöld heldur líka lækka gjöld eins og við þekkjum, til að mynda veiðigjöldin, lækka skatta á sama tíma og við ættum að búa í haginn fyrir niðursveifluna sem við stöndum frammi fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Óttast þingmaðurinn ekki núna í niðursveiflunni og miðað við það hvernig forgangsröðun ríkisstjórnarinnar gagnvart öryrkjum og öldruðum hefur verið að það verði akkúrat þeir hópar sem verði fyrir þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin muni standa fyrir?