149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:24]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins inn í þau orðaskipti sem voru í gangi og segja að það er rétt sem hæstv. forseti eða hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í máli sínu áðan. Ég hef rakið það áður í ræðum að hugsunin á bak við þessa framfærsluuppbót á sínum tíma var að reyna að ná til hóps sem ekki hafði neitt annað. Síðan hefur umræðan breyst og menn hafa talað um að það séu of miklar skerðingar á þann flokk vegna þess að hugsunin var sú að ná til þeirra sem stóðu algjörlega strípaðir. Ég held að umræðan hafi m.a. þróast yfir í þá átt vegna þess að við sjáum mikið nýgengi örorku og við þurfum að hvetja til þess að fólk sæki vinnu. Við þurfum að setja aukna hvata inn í kerfið til þess en það verður áskorun. Það verður áskorun við gerð nýs frumvarps á grunni þessa starfshóps hvernig við ætlum að tryggja þennan allra lægsta hóp sem ekki getur sótt vinnu, vegna þess að króna á móti krónu skerðing hefur ekki áhrif á hann.

Það er það sem við erum að gera núna gagnvart öldruðum. Í samstarfi við Landssamband eldri borgara vinnur félagsmálaráðuneytið að frumvarpi til að ná utan um versta hópinn þar, til að beina ákveðnum fjármunum til þeirra sem verst standa þar og mun þurfa að setja einhverjar takmarkanir þannig að það sé ekki fyrir alla, alveg eins og var með framfærsluuppbótina á sínum tíma, svo að við náum utan um þann hóp sem verst stendur. Við viljum beina fjármagninu þangað vegna þess að ef við hækkum alla gagnvart öldruðum rennur það líka til þeirra sem ekki þurfa á því að halda. Við viljum beina fjármagninu til þeirra sem verst standa, hafa minnst réttindi í kerfinu, búa jafnvel einir á leigumarkaði o.s.frv. (Forseti hringir.) Það gerum við með því að setja einhverjar takmarkanir í kringum það. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að hafa þetta í huga, að við getum ekki gert það nema setja einhverjar girðingar í kringum það.