149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og yfirferð á þessu máli. Þingmaðurinn talar um hversu seinvirk sú leið geti verið sem þarna er um að ræða. Ég ætla að spyrja þingmanninn og skil vel ef það er ekki auðvelt að svara spurningunni en ég er að velta fyrir mér hvort við þekkjum einhverjar leiðir, kannski frá nágrannalöndum eða annars staðar frá, sem eru fljótvirkari, þ.e. að það taki styttri tíma að taka á þessu. Auðvitað er rétt hjá hv. þingmanni að samkeppnisstaða þeirra sem sinna starfi sínu og reyna að gera það eftir öllum settum reglum er erfið þegar aðili kemur aftur og aftur inn með nýja og nýja kennitölu í beinni samkeppni. Við sáum það í eftirmálum hrunsins að þá virtist sem fjármálastofnanir handveldu einhverja til að lifa og létu aðra fari í gjaldþrot, alla vega hafa þær verið ásakaðar um slíkt.

Ég velti líka fyrir mér, virðulegur forseti, og velti því upp við hv. þingmann hvort látið hafi verið reyna einhvers staðar á þá hugmynd sem þingmaðurinn kom fram með, sem mér skilst að fleiri hafi viðrað, þ.e. að menn fari í einhvers konar bann frá atvinnurekstri tímabundið verði þeir fundnir sekir eða ljóst er að þeir séu að leika sér með einhverjum hætti að kennitöluflakki. Er það þekkt einhvers staðar að? Þekkjum við dæmi um slíkt? Eru mótrökin hugsanlega tengd hinum stjórnarskrárvarða rétti um frelsi einstaklingsins? Það er þetta sem mig langar að forvitnast um í fyrra andsvari.