149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:38]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef svolitlar áhyggjur af afstöðu þingmanna Miðflokksins sem mér sýnist að sé svipuð og þegar þeir voru í Framsóknarflokknum. Það er gamalt Framsóknarfrumvarp um þetta kennitöluflakk. Ég hef oft spurt: Hvað er kennitöluflakk? Ég spyr marga að þessu en enginn getur almennilega svarað mér hvað kennitöluflakk er. Þegar umræðan heldur áfram kemur í ljós að kennitöluflakk er ef menn fara í gjaldþrot, ég tala nú ekki um oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Þetta kom aðeins fram í ræðu hv. 8. þm. Suðurk., Karls Gauta Hjaltasonar, míns gamla skólabróður. Ég hafði á tilfinningunni að það væri lögreglustjórinn að tala en ekki lögfræðingurinn sem er út af fyrir sig allt í lagi. Þetta er mjög vandmeðfarið og menn mega ekki gleyma tvennu í þessu sem eru mikilvægustu atriðin. Annars vegar er hið stjórnarskrárbundna atvinnufrelsi sem menn verða ekki svo glatt sviptir og hins vegar mikilvægi þess fyrir frjáls samfélög að hér geti menn stundað atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð. Ég er ekki viss um að almenningur átti sig almennilega á því að þetta fyrirkomulag í atvinnurekstri er algjör forsenda þess að hin frjálsu Vesturlönd ruku fram úr öðrum samfélögum í velferð. Þetta fyrirkomulag er gríðarlega mikilvægt. Það þýðir auðvitað í heilbrigðri samkeppni að einhverjir verða undir í þeirri samkeppni. Það er algjör forsenda þess að þetta virki að einhverjir tapi í þessari samkeppni.

Það er mjög langt gengið í mínum huga að segja að gjaldþrot, hvort sem þau eru eitt, tvö eða þrjú, mismunandi í umræðunni hjá mönnum, þýði að menn geti ekki stundað atvinnurekstur í félagi með takmarkaða ábyrgð. Það eru margir í atvinnurekstri með mörg félög. Þetta er sérstaklega áberandi í nýsköpunarfyrirtækjum þar sem menn taka mikla áhættu með eigið fé sem menn vita fyrir fram að séu talsverðar líkur á að tapist. Það er algengt að sömu menn séu með þrjú slík fyrirtæki í gangi í einu. Þau geta auðvitað öll orðið gjaldþrota á innan við 18 mánuðum, jafnvel innan árs. Það er ekki svona einfalt að segja að ef einhver sem stendur í atvinnurekstri verði gjaldþrota tvisvar eða þrisvar verði hann sviptur þessari ábyrgð.

Þá spyr maður auðvitað: Hvað getum við gert í þeim tilvikum þar sem við skynjum að verið sé að misfara með þetta form, ef menn eru ekki að taka áhættu með eigið fé heldur fé hins opinbera? Það er auðvitað alveg ljóst að við getum svipt menn þessum atvinnuréttindum ef þeir hafa brotið af sér, þ.e. brotið af sér með því að þeir hafa ekki borgað vörsluskatta, þeir hafa brotið alvarlega hlutafélagalögin, brotið eitthvað í hegningarlögum., og þá er það ekkert vandamál. En hverjir eru þá eftir? Eru einhverjir kennitöluflakkarar sem skulda ekki vörsluskatta? Þeir eru örugglega ekki margir. Ég hef velt þessu heilmikið fyrir mér. Ég hef velt fyrir mér hvort við getum haft einhvers konar ákvæði í hlutafélagalögum, gjaldþrotalögum eða einhverjum slíkum lögum þar sem menn geta sagt að hér hafi ekki verið eðlileg starfsemi í samræmi við hlutafélagalögin og það er ítrekað brot og þá getum við svipt menn atvinnurekstrinum. Eitthvað slíkt er mögulegt, það er örugglega vandi að orða slík ákvæði en ég sem gamall skiptaráðandi í Reykjavík árum saman, ég hef sennilega skipt mörg hundruð þrotabúum, varð ég ekki mikið var við það að menn legðu almennt þann skilning í kennitöluflakk að menn væru eingöngu í þessu til að svindla á hinu opinbera. Þó er það þekkt en það var alltaf hægt að heimfæra það upp á eitthvert brot.

Sem skiptaráðandi og síðan skiptastjóri eftir að ég varð lögmaður tilkynnti ég margsinnis slík brot í atvinnurekstri til lögreglu, skattrannsóknarstjóra o.s.frv. Ef niðurstaðan er sú að það er brot er ekkert því til fyrirstöðu í mínum huga að segja: Ókei, hér er það alvarlegt brot að við teljum rétt að viðkomandi geti ekki stundað atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð í einhvern tíma. Kannski er vandamálið það að réttarvörslukerfið sinnir þessum málum ekki sem skyldi, þ.e. að sum eru kannski minni háttar í þeirra huga, eru sett aftast, kannski ekki svo auðvelt að upplýsa nema leggja mikla vinnu og mannskap í slíkt.

Ég sé fyrir mér að við búum til eitthvert umhverfi þar sem tekið er á því sem blasir við, að menn sem hafa staðið í atvinnurekstri komist ekki upp með það að brjóta ítrekað hegningarlög, hlutafélagalög og önnur lög af því að menn vilja bara klára að skipta búinu og nenna ekki skipta sér af þessu. Kannski líta menn svo á að það sé takmarkað tjón o.s.frv. Þetta getur kallað á heilmikið aukinn mannskap í þetta kerfi til að sinna þessu, það má vera, en ég sé miklu frekar eitthvað slíkt fyrir mér en pósitíft ákvæði um það að ef maður fer í gjaldþrot þrisvar sé hann sviptur atvinnuréttindum. Mér líst ekki á það.

Ég vil standa vörð um hið mikilvæga stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi manna og mikilvægi þess að frumkvöðlar og þeir sem taka áhættu geti verið í slíkum rekstri.

Ég vil líka aðeins benda á það sem hv. þm. Gunnar Bragi sagði áðan um hin samningsbundnu réttindi, þ.e. lífeyrisréttindi. Ég er ekki sammála honum í því og lít á samningsbundin réttindi um greiðslu í lífeyrissjóð ekkert öðruvísi en þau samningsbundnu réttindi að fá laun fyrir vinnuna. Það eru samningsbundin réttindi. Ég á rétt á þóknun fyrir þetta endurgjald eins og allir samningar eru. Ef ég hef dregið af þér fé sem þú átt, hv. þingmaður, en skila því ekki er ég búinn að fremja brot á 247. gr. almennra hegningarlaga sem er fjárdráttur af því að þá hef ég dregið mér fé. Ef menn hafa framið slíkt brot í atvinnurekstri er rétt að þeir verði sviptir einhverjum slíkum réttindum. Við verðum að hafa einhver brot til að svipta menn réttinum, ég tala nú ekki um þegar þau eru stjórnarskrárbundin.

Þannig horfi ég á þetta. Ég er ekki heldur viss þegar menn tala um tjón af þessum gjaldþrotum. Auðvitað verða einhverjir fyrir tjóni. Kröfuhafar verða fyrir tjóni. Það er hluti af þessum viðskiptum. Það verða einhverjir fyrir tjóni, það geta ekki allir grætt í öllum rekstri. Það er ekki hægt. Menn verða fyrir tjóni af því að allir eru að taka áhættu, líka þeir sem eiga viðskipti sín á milli. Hluti af hinu frjálsa samfélagi, hinum frjálsu viðskiptum, er að menn taka áhættu í þeim viðskiptum. Menn vita aldrei hvort þeir fá greitt, þeir taka áhættuna af því. Þess vegna meta menn þá sem eru í viðskiptum, meta hvort félagið sé traust, hvort aðilarnir sem standa að því séu traustir o.s.frv.

Ef menn eru ekki traustir, hafa slæman feril, er svo sem auðvelt að kanna það líka. Þá segja menn: Ekki eiga viðskipti við slíkt fólk ef þú treystir því ekki. Ef það er með slóðann á eftir sér ár eftir ár tekurðu enn meiri áhættu að eiga viðskipti við slíkan aðila.

Ég veit ekki hvort vandinn er eins mikill og af er látið í umræðunni en það er hins vegar afar hvimleitt að standa í atvinnurekstri í samkeppni við slíka aðila sem eru eingöngu til þess að ná í stuttan tíma einhverjum peningum út og er svo nokk sama um félagið. Það er vandinn sem við erum að glíma við, en ég held að hann sé ekki mikill í heildardæminu og þegar við sjáum það getum við langoftast heimfært upp á einhvers konar brot sem eiga að vera viðurlög við. Við þurfum bara að ganga alla leið og þá getum við sagt: Ókei, þá er forsenda til að takmarka þennan stjórnarskrárvarða rétt til að stunda atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð. Þannig lít ég á þetta. Ég tel þetta frumvarp ágætt svo langt sem það nær en ég vil að menn fari betur í það hvernig við getum glímt við þennan litla hóp sem við skynjum að fái jafnvel einhverja aðra til að vera í forsvari, sem er allt hluti af svindlinu getum við sagt, og taka á því, láta menn sæta viðurlögum fyrir það og þá búa til eitthvert pósitíft ákvæði eða eitthvert ákvæði sem getur náð utan um verknaðarlýsingu þessarar háttsemi.

Þannig horfi ég á þetta, hæstv. forseti. Ég er alveg tilbúinn að sitja í slíkri nefnd sem getur sett sig algjörlega inn í öll þessi raunverulegu vandamál sem við erum að glíma við. En við megum ekki fara fram úr okkur og draga þannig úr því að menn séu tilbúnir að taka þessa áhættu með eigin peninga, leggja allt undir, allt sitt fé sumir og fjölskyldurnar og jafnvel fleiri. Svo þegar illa fer geta menn sagt: Nei, þú mátt ekki stunda hér atvinnurekstur. Ég er ekki kominn þangað með ykkur, hv. þingmenn, en ég er tilbúinn að setjast niður með ykkur öllum og fara yfir það hvað gætu verið raunverulegar aðgerðir til að glíma við þann fámenna hóp sem ég segi að sé í þessu í óheiðarlegum tilgangi. Það skal ekki standa á mér að beita mér í því en það dugar mér ekki að menn hafi orðið gjaldþrota einu sinni, tvisvar, þrisvar eða jafnvel oftar.