149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einmitt reynt að kynna mér þetta eftir fremsta megni og hafði hugsað mér að halda sérstaka ræðu um þetta mál, endurheimt votlendis eins og það er kallað, og þá tvær ef ein ræða dugar ekki til.

En svo að ég veiti nú hv. þingmanni stuttu útgáfuna þá liggja ekki fyrir rannsóknir að því marki að hægt sé að kveða upp úr um að þetta skili þeim árangri sem talsmenn þessarar aðferðar hafa haldið fram. Raunar hafa verið færð rök fyrir því og skrifaðar um það ágætisgreinar, m.a. í Bændablaðið, að þessar aðgerðir geti skilað öfugum árangri, þ.e. verið skaðlegar hvað varðar losun, til að mynda í dæmum eins og hv. þingmaður nefndi.

En ég mun fara betur yfir þetta í sérstakri ræðu.