149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[23:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999. Nefndarálitið er á þskj. 1501.

Iðgjöld íslenskra innlánsstofnana í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, TIF, samanstanda af almennu iðgjaldi annars vegar, sem er ákveðið hlutfall af öllum innstæðum innlánsstofnunar, og iðgjaldi samkvæmt áhættustuðli hins vegar. Í frumvarpinu er lagt til að hlutfallstala almenns iðgjalds lækki úr 0,225% í 0,16% sem jafngildir um 26% lækkun iðgjalda í sjóðinn.

Iðgjöld í TIF eru há hér á landi í samanburði við önnur EES-ríki en í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er bent á að iðgjöldin nemi um 3–4% af rekstrarkostnaði innlánsstofnana. Hlutfallslega er kostnaðurinn enn meiri hjá sparisjóðum sem fjármagna starfsemi sína að langmestu leyti á innlánum. Hlutur iðgjalda til TIF hefur verið 7–8% af rekstrarkostnaði sparisjóða.

Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu byggjast lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, á tilskipun EB en þeirri tilskipun og reglum um innstæðutryggingar hefur verið breytt með tilskipunum 2009/14/EB og 2014/49/ESB. Þetta eru svokallaðar DGS-reglugerðir. Unnið er að upptöku tveggja síðarnefndu tilskipananna, þ.e. DGS II og DGS III, í EES-samninginn. Þá ber að skoða reglur um innstæðutryggingar í samhengi við ákvæði tilskipunar 2014/59/ESB, svokallaðri BRRD, sem innleidd var að hluta með lögum nr. 54/2018 og stefnt er á að innleiða að fullu á næsta löggjafarþingi. Um þær breytingar sem eru í farvatninu samhliða innleiðingu síðari hluta BRRD og upptöku DGS II og DGS III vísast til umfjöllunar í 2. og 3. kafla greinargerðar með frumvarpinu.

Í árslok 2018 námu heildareignir innstæðudeildar TIF 38,6 milljörðum kr. sem nemur 2,7% af innstæðum sem tryggðar eru samkvæmt gildandi lögum. Hlutfallið nemur 4,5% sé miðað við ákvæði DGS III, þar sem m.a. er kveðið á um 100 þúsund evru hámark á tryggingavernd innstæðna. Hlutfallið telst hátt í alþjóðlegum samanburði og er hlutfallsleg eignastaða sjóðsins verulega umfram 0,8% lágmarksviðmið tilskipunarinnar.

Með hliðsjón af því hversu hlutfallslega þung byrði iðgjöldin eru fyrir fjármálafyrirtæki sem aðallega eru fjármögnuð með innlánum og því að staða TIF sýnir að nokkurt svigrúm er til frekari lækkunar iðgjalda telur meiri hluti nefndarinnar rétt að tekin verði upp þrepaskipting á almennu iðgjaldi í sjóðinn. Leggur meiri hlutinn til að af innstæðum upp að 10 milljörðum kr. skuli almennt iðgjald nema 0,02% á ári en af innstæðum umfram þá fjárhæð nemi hlutfallið 0,16% líkt og lagt er til í frumvarpinu. Þá leggur meiri hlutinn til samsvarandi breytingu á hlutfalli á ársfjórðungslegum gjalddögum. Með þessari breytingu vill meiri hlutinn styrkja samkeppnisstöðu sparisjóða en um leið njóta aðrar fjármálastofnanir góðs af lækkuninni. Meiri hlutinn telur að með þessu móti aukist svigrúm innlánsstofnana til að minnka vaxtamun og bjóða viðskiptavinum sínum hagstæðari kjör en áður.

Að auki leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði þar sem ekki næst að gera viðeigandi ráðstafanir og kemur það fram í nefndarálitinu, en með því fylgja breytingartillögur eins og áður segir og vísa ég í það.

Ég vek athygli á því að með þessu er meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar í raun að ýta undir aukna samkeppni á milli fjármálafyrirtækja og teljum við að það sé af hinu góða og nauðsynlegt.

Ég óska að vísu eftir því, herra forseti, að málinu verði vísað aftur til efnahags- og viðskiptanefndar á milli 2. og 3. umr. Borist hafa athugasemdir frá tveimur af stóru fjármálastofnunum, viðskiptabönkunum, vegna þessarar þrepaskiptingar og er eðlilegt og sanngjarnt að nefndin hlusti á sjónarmið þeirra. Einnig hefur nefndinni borist umsögn frá Samkeppniseftirlitinu sem mælir eindregið með þeim tillögum sem nefndin leggur til.

Herra forseti. Smári McCarthy ritar undir nefndarálitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Undir nefndarálitið rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, formaður og framsögumaður, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Smári McCarthy, með fyrirvara.