149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Örstutt um þetta mál. Eins og ég gat um í ræðu við 2. umr. málsins lætur það ekki mikið yfir sér en er engu að síður grundvallarmál, prinsippmál. Það er sorglegt að hlusta á ræður stjórnarþingmanna, m.a. þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, miðað við það hvaða stefnu þeir hafa haft fram til þessa í fiskveiðistjórninni. Nú eru þeir eins og leikskólabörn í bandi Sjálfstæðisflokksins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Brynjar Níelsson, kom einmitt inn á það og undirstrikaði að það er sama hvaða leiðir við erum að reyna að fara til að tryggja sameign þjóðarinnar, menn eru með efasemdir. Þess vegna er brýnna en nokkru sinni fyrr að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Menn eru hér með verulegar efasemdir um að nytjastofnarnir í sjónum séu sameign þjóðarinnar þrátt fyrir að það standi í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga frá árinu 1990. Það var einu sinni sú grein sem hélt heilli ríkisstjórn saman, frá 1991–1995, þannig að hér eru í raun og veru miklar efasemdir um að þjóðin eigi fiskinn í sjónum. Það kemur ítrekað fram af hálfu Sjálfstæðismanna. Framsóknarmenn sjást ekki mikið í þessari umræðu en þetta virðist vera orðin þeirra skoðun líka og mér finnst það miður því að Framsóknarmenn ásamt Vinstri grænum og öllum öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum hafa einmitt verið frekar hallir undir það að gera tímabundna samninga. Af hverju erum við í Viðreisn alltaf að ræða tímabundna samninga? Jú, það er til að tryggja það og undirstrika að um er að ræða rétt þjóðarinnar, þetta er sameign þjóðarinnar. Þetta eru auðlindir þjóðarinnar.

Það sem er verið að gera hér er ekki bara að hugsanlega sé verið að fara að greiða miklar skaðabætur til þeirra útgerða sem hafa haft hvað mestan hagnað af makrílnum á umliðnum árum, það hleypur á tugum milljarða. Það er mikilvægt að nýta það vel en það er líka mikilvægt að segja ítrekað að þjóðin á hlutdeild í því sem er verið að vinna úr sjónum. En ekki síður tel ég að því til viðbótar sé með þessari leið ríkisstjórnarinnar verið að tryggja stórútgerðum m.a. eilífðarréttindi. Þess vegna er svo sárt að hafa upplifað það að þingmenn, m.a. Vinstri grænna, hafa nú hafnað því að gera tímabundna samninga til þess að undirstrika rétt þjóðarinnar. Ég á eftir að sjá það auðlindaákvæði sem kom út úr samstarfi formanna allra stjórnmálaflokka verða að veruleika. Ég óttast með ríkisstjórnarflokkana, og þá er ég að tala um Miðflokkinn líka, þetta er allt að verða að sömu súpu, að farin verði fjallabaksleið eða einhver önnur leið til að koma í veg fyrir það á endanum að auðlindaákvæðið öðlist gildi, þetta mikilvæga ákvæði til þess að setja svolítið strik í reikninginn hvað varðar þetta frumvarp. Hér er verið að fara þá leið sem við vörum eindregið við, ekki bara að ekki sé verið að gera tímabundna samninga heldur er verið að tryggja eilífðarréttindi. Það er slæmt og því viljum við í Viðreisn mótmæla.

Áðan sagði stjórnarþingmaður frá Vinstri grænum, formaður atvinnuveganefndar, að löggjafinn hefði frjálsar hendur í því hvernig farið yrði með stjórn fiskveiða. Það er alveg hárrétt, það er einmitt alveg hárrétt og þess vegna vekur það upp spurningar af hverju Vinstrihreyfingin – grænt framboð fer nákvæmlega þessa leið. Af hverju velur löggjafinn og ríkisstjórnin þessa leið þegar hún hefur val um það hvernig stjórn fiskveiða á að vera? Hún velur að tryggja ákveðnum útgerðum eilífðarréttindi í staðinn fyrir að hugsa um þjóðina, sameign þjóðarinnar, auðlindir þjóðarinnar, þrátt fyrir að hér inni séu miklir efasemdarmenn eins og við höfum heyrt sem vilja ekki taka undir að auðlindir á landi eða í hafi séu og geti verið sameign íslensku þjóðarinnar.

Þetta frumvarp er enn eitt skrefið í því að mylja undan rétti íslensku þjóðarinnar gagnvart auðlindum sínum. Það er það sem við í Viðreisn erum að vara við þegar kemur að þessu máli og höfum lagt fram tillögur sem ganga einmitt í þveröfuga átt varðandi réttindi þjóðarinnar. Við lögðum fram frumvarp sem meiri hlutinn hér á þingi, náttúrlega líka með stuðningi Miðflokksins, felldi hér í gær, um að tryggja auðlindir þjóðarinnar. Það var fellt og þess vegna verður baráttan fyrir því að tryggja eðlileg réttindi þjóðarinnar að halda áfram. Þess vegna heldur umræðan um sjávarútveginn áfram með þeim hætti sem hún hefur verið fram til þessa. Ríkisstjórnarflokkarnir og sjávarútvegurinn getur ekki ætlast til þess að meðan málum er svona háttað munum við þegja og vera bara glöð og ánægð með þróun mála. Við erum stolt, ég er margoft búin að ítreka það, af íslenskum sjávarútvegi en þetta óréttlæti verður ekki látið viðgangast.