149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú kom fram í andsvörum hv. þm. Brynjars Níelssonar áðan að allir hefðu bara vitað að ekki mætti ákveða þetta með reglugerð. En það var ekki þannig að allir vissu það. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að þetta hefði verið í lagi og að ríkið væri ekki skaðabótaskylt. Hæstiréttur sneri málinu hins vegar við. Hagsmunagæsla meiri hlutans fyrir hönd almennings er slík að þeim dettur ekki í hug að kanna hvort taka þurfi málið upp vegna hugsanlegs vanhæfis eins dómara og fara ekki einu sinni fram á að það verði skoðað.

En aðrir hæstaréttardómar hafa fallið og í dómi máls Vinnslustöðvarinnar hf. gegn íslenska ríkinu frá því í mars 2017 kemur fram, í niðurstöðu dómsins, að löggjafi geti ákveðið að úthlutaðar veiðiheimildir skuli innkallaðar á hæfilegum aðlögunartíma og þeim eftir atvikum endurúthlutað svo og kveðið nánar á um réttindi til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann fégjald vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun nytjastofna. Það er ekki bara stjórnarskráin, það eru líka hæstaréttardómar sem byggja undir það að sú leið sem Samfylkingin hefur talað fyrir og nú Viðreisn, eftir að hún kom á þing, um útboð á aflaheimildum, sé sjálfsögð og réttlát.