149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

póstþjónusta.

270. mál
[00:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég finn mig knúna til að koma hingað upp vegna orða hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem ekki gat, væntanlega vegna annarra þingstarfa, setið fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þar sem mikið var um þetta rætt.

Varðandi trúnaðinn sem á skýrslunni hvílir er trúnaðurinn vegna þess að ríkisendurskoðandi hefur ekki enn verið boðaður á fund fastanefndar Alþingis til að kynna skýrsluna. Hann óskar trúnaðar þar til skýrslan hefur verið kynnt nefnd vegna þess að hann vill ekki að um hana sé fjallað fyrr en hann hefur kynnt Alþingi skýrslu sem hann hefur gert og um hana hefur verið fjallað. Þess vegna er sá trúnaður. Í skýrslunni eru hins vegar svo upplýsingar sem verða afmáðar eftir en þar er um að ræða einstaka tölulegar upplýsingar og er það ekki sá trúnaður sem um er að ræða hér.

Trúnaður fer á milli allra nefnda þannig að það er ekki hægt að ræða um innihald skýrslunnar en engu að síður var ekkert því til fyrirstöðu að bíða með þessa lagasetningu, eins og ég kom inn á áður, (Forseti hringir.) á meðan Alþingi kynnir sér niðurstöðu eftirlitsstofnunar á vegum Alþingis sem er Ríkisendurskoðun.