149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:40]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Nú þegar fer að halla hinu dýrlega sumri sem við höfum notið á landinu fagra, ekki síst hér fyrir sunnan, og við tekur alvara lífsins. Þjóðin ber augsýnilega ugg í brjósti vegna þriðja orkupakkans og skoðanakannanir staðfesta að ríflegur meiri hluti hennar er andvígur samþykkt hans á Alþingi. Engin kynning hefur farið fram af hálfu stjórnvalda á þessu máli, kostum þess og göllum. Spurningunni sem var varpað fram við upphaf þessarar umræðu um hvers vegna ætti yfir höfuð að samþykkja þetta hefur ekki verið svarað. Spurningunni um hvað liggur á að samþykkja þetta hefur ekki verið svarað.

Mikilvæg skjöl liggja til grundvallar þessu máli. Færustu lagamenn voru fengnir til að skila lögfræðilegum álitsgerðum. Sérstaka stöðu í því hefur álitsgerð þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar þar sem teflt er fram tveimur leiðum og ríkisstjórnin valdi aðra þeirra. Þeir hafa að vísu sagt að sú leið sem ríkisstjórnin valdi sé næstbesti kosturinn og að þeir standi við það að þeirra megintillaga í málinu sé að leita eftir samkomulagi á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar um að Ísland verði undanþegið því að innleiða umræddar reglugerðir 713 og 714 í landsrétt hér á landi.

Ég vil vekja athygli á framhaldsnefndaráliti sem hefur verið dreift frá minni hluta utanríkismálanefndar. Sá knappi tími sem er til ráðstöfunar gefur ekki færi á því að rekja það nema í sem allra stystu máli og stikla á stóru en fram hjá því verður ekki litið að í hinni lögfræðilegu álitsgerð ráðunauta ríkisstjórnarinnar sem ég nefndi áðan eru eindregin viðvörunarorð. Þau lúta m.a. að því að erlendri stofnun, Eftirlitsstofnun EFTA, sé falið ákvörðunarvald og a.m.k. óbein áhrif á skipulag, nýtingu og ráðstöfun mikilvægra íslenskra orkuauðlinda. Síðustu þrjú orðin eru skáletruð til áherslu af hálfu höfundanna. Þeir segja í áliti sínu að lengra sé gengið í framsali ríkisvalds en dæmi eru um hér á landi í 25 ára sögu EES-samningsins. Þeir segja að með hæfilegri einföldun megi líkja þessu við að erlendri stofnun væri falið ákvörðunarvald um heildarafla á fiskimiðunum umhverfis landið.

Herra forseti. Lagalegi fyrirvarinn átti að leysa málið og gera það óhætt að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Þannig stendur á að það er orðin leit að þeim manni lögfróðum sem myndi treysta sér til að halda því fram að einhliða yfirlýsing Alþingis eða íslenskra stjórnvalda hafi hið minnsta gildi í þjóðréttarlegum skilningi. Yfirlýsingin er ekki bindandi fyrir viðtakanda. Þvert á móti gera höfundarnir, Friðrik Árni og Stefán Már, ráð fyrir því í bréfi til utanríkisráðherra 10. apríl sl. að lagalegi fyrirvarinn gæti mögulega orðið tilefni til samningsbrotamáls á hendur Íslandi af hálfu ESA. Í bréfi til utanríkismálanefndar Alþingis 19. ágúst sl. segja þeir að þeir telji þegar þeir skoða öll gögn málsins að hinir lagalegu fyrirvarar sem núna eru komnir í fleirtölu hafi verið nægilega kynntir viðeigandi aðilum. Um þjóðréttarlegt gildi segja þeir ekki eitt aukatekið orð í þessu bréfi.

Á fundi utanríkismálanefndar hafa komið margir góðir gestir. Sumir hafa reyndar fengið misjafnar viðtökur eins og fram hefur komið en höfundur bókarinnar EES-réttur og landsréttur, Davíð Þór Björgvinsson prófessor, sagði aðspurður á fundi nefndarinnar 8. maí sl. um þjóðréttarlegt gildi hins lagalega fyrirvara að það væri ekkert, hann væri bara til heimabrúks. Þessi ummæli staðfesti hann á fundi nefndarinnar 19. ágúst sl.

Undir þetta hafa tekið fimm valinkunnir hæstaréttarlögmenn og valinkunnur héraðsdómari. Því hefur verið haldið fram annars vegar að þetta væri smámál og væri vart á þessu orð gerandi, slíkt smáatriði væri þetta, en einnig hefur því verið haldið fram að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu muni leiða af sér í framhaldinu lægra orkuverð og aukna neytendavernd. Í ítarlegri greinargerð sem að standa fjölmargir höfundar og margir þeirra mikilsvirtir fræðimenn kemur glögglega fram að frá fræðilegu sjónarhorni er þess síður en svo að vænta að orkuverð lækki og er það í samræmi við reynslurök, bæði hér á landi og í Noregi.

Sömuleiðis er farið þar yfir neytendavernd og ég þarf ekkert að rekja það en má geta þess að þegar það mál kom upp á fundi utanríkismálanefndar í vor, eða hvort það var í atvinnuveganefnd, kom fram að það sem helst skorti á neytendavernd væri aukinn málshraði hjá kærunefnd sem er starfandi á vettvangi orkumála og það er kannski mál sem við værum fullfær um að leysa sjálf án þess að innleiða þennan þriðja orkupakka.

Höfundarnir tveir vekja að eigin frumkvæði máls á möguleikanum á samningsbrotamáli og hugsanlegum skaðabótamálum á hendur okkur, ekki af því að okkur beri nein skylda til að leggja sæstreng eða til að auka við sæstreng sem væri fyrir heldur ef sú staða kæmi upp að aðili leitaði eftir tengingu og fengi synjun hjá Orkustofnun. Þeir rekja í margnefndri neðanmálsgrein 62 á bls. 35 að staða Íslands í slíku máli væri ekki vænleg. Við þekkjum þetta af eigin reynslu, þ.e. frosna kjötið, Belgar þekkja þetta, búið er að höfða samningsbrotamál á hendur þeim af hálfu Evrópusambandsins.

Herra forseti. Ef ekki er vilji fyrir því að fella þetta mál eins og efni standa til væri a.m.k. sæmst að fresta því, skoða það nánar og hlusta á rödd þjóðarinnar.