149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvernig hægt er að taka álit og velja úr því ákveðnar setningar og komast svo að annarri niðurstöðu en komist er að í því áliti. Það er afar áhugaverð vinna af hálfu þingmannsins og hv. flokks hans. Ekki þarf annað en að lesa niðurstöðu álitsins til að komast að því að farið var eftir niðurstöðu álits Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. Þeir segja enn fremur að mikilvægt sé að náðst hafi sameiginlegur skilningur með orkumálastjóra Evrópusambandsins hvað grundvallarforsendu Íslands varðar og sérstöðu Íslands. Þótt slík yfirlýsing sé pólitísk í eðli sínu hefur hún engu að síður verulegt gildi og þýðingu í því samhengi. Það er algjörlega fáránlegt að koma hingað upp og ítreka það sem hv. þingmaður kemur fram með og leggja þeim fræðimönnum þau orð í munn að þeir telji að þetta hafi ekkert gildi og ekkert vægi. Ég velti fyrir mér hvernig hægt er að sitja nefndarfundi og snúa svona oft út úr orðum háttvirtra og góðra fræðimanna sem koma fyrir nefndina. Ég nefni Davíð Þór Björgvinsson. Mér finnst það áhugavert. Fundirnir voru opnir fjölmiðlum svo að allir hefðu aðgengi að málinu og fengju allar þær upplýsingar sem þörf væri á en hv. þingmenn sem þar sitja snúa út úr orðum gesta og nýta sér það sem þeim hentar úr málflutningi þeirra og skýrslum en ekki niðurstöður.

Ég ætla einnig að leiðrétta hv. þingmann þegar hann segir að þeir hafi sent bréf eftir fundinn. Það var beiðni hv. þingmanns að fá það skýrt frá þeim. Þeir fundu það ekki upp hjá sjálfum sér. Það kom beiðni frá hv. þingmanni á nefndarfundi sem formaður varð við, eins og við öllu öðru sem kom fram í vinnu nefndarinnar. Og þeir segja að þeir telji að fyrirvörunum hafi réttilega verið haldið til haga, ekki að þeir hafi, ég man ekki hvað hv. þingmaður sagði, (Forseti hringir.) ekki verið nægilega kynntir eða annað slíkt. (Forseti hringir.) Það var spurningin sem hv. þingmaður spurði þá fræðimenn og þeir svöruðu með bréfi.