149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það, en þegar maður hefur eina mínútu til að svara má alveg færa rök fyrir því að svarið sé rýrt. Maður er að fara yfir stórmál á mjög skömmum tíma. Ég held að það sé alls ekki sanngjarnt að leggja málið þannig upp að gas sé sambærilegt rafmagni hér á landi. Það er það alls ekki. En þetta snýr líka að miklu fleiru. Við flytjum t.d. út raftæki og það er nokkuð sem tengist þessu, þar eru t.d. útflutningshagsmunir. Hv. þingmaður er að vísa til hluta sem voru unnir á tíma áður en ég kom inn í ráðuneytið. En ef ráðherra þess tíma hefði viljað fara í slíkar aðgerðir hefði það kallað á mjög mikla umræðu og miklu flóknara og stærra mál. Ef hv. þingmaður segir að ég nái ekki að fara vel yfir þetta á þessari mínútu held ég að það sé alveg rétt, enda málið þess eðlis að flest í umræðunni tengist í rauninni ekkert þriðja orkupakkanum, það tengist (Forseti hringir.) EES-samningnum.