149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég var ekki að ýja að neinu. Ég hef bara haldið því til haga, eins og það heitir, hvað stendur í lögfræðilegri álitsgerð þeirra tveggja sérfræðinga sem hér hafa verið nefndir sem voru kvaddir til starfa í þágu utanríkisráðuneytisins og eru þá samkvæmt því lögfræðilegir ráðunautar hæstv. utanríkisráðherra. Það eru þeir sem tala um ákvörðunarvald erlendrar stofnunar sem lýtur að skipulagi, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra íslenskra orkuauðlinda. Það eru þeir sem tala um að hér ræðum við um meira framsal af hálfu Íslendinga en dæmi eru um í 25 ára sögu EES-samningsins. Það eru þeir sem kjósa að líkja þeirri ákvörðun sem fyrir liggur við það að erlendri stofnun væri falið ákvörðunarvald um heildarafla á Íslandsmiðum.

Úr því að ég er hér að ávarpa hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) langar mig að spyrja hvort hann telji koma til greina að leggja fram þær athugasemdir utanríkisráðuneytisins sem voru gerðar og getið er um í álitsgerð þeirra tvímenninga og getið er um í 6. kafla þeirrar álitsgerðar?