149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að ég er enn svo hugleikinn hæstv. ráðherra að hann treystir sér ekki til að svara einni einustu spurningu, hann heldur áfram með, ég held að ekki sé hægt að kalla það annað en þráhyggju sína gagnvart mér [Kliður í þingsal.] og heldur áfram með undarlegar söguskýringar sínar. Eins og kom fram eftir þennan margnefnda fund, eins og kom fram þá og ég lýsti yfir í fjölmiðlum og í tilkynningu, hafði ég miklar efasemdir um að þetta væri rétt og taldi að skoðun myndi leiða það í ljós. En hvað um það, hv. þingmaður virðist ekki ná tengingu við raunveruleikann, jafnvel ekki þegar hann birtist í formlegum tilkynningum, ekki í þessu máli, ekki frekar en þegar Evrópusambandið sjálft tilkynnir um það í fréttatilkynningu að það sé farið í málaferli við eitt af ríkjum sambandsins fyrir að innleiða ekki pakkann með þeim hætti sem við höfum verið að vara við.

Ég ætla bara að ítreka fyrri spurningu og hvet hæstv. ráðherra, þurfi hann að tjá sig meira um mig, að gera það bara á Facebook og annars staðar. Hann gerir það víða. (Forseti hringir.) Ég ítreka spurninguna: Hvers vegna vill hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson innleiða (Forseti hringir.) þriðja orkupakkann? Hverjir eru kostirnir við það og hvers vegna má ekki ræða þetta aftur í sameiginlegu EES-nefndinni?