149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ræðu. Hann talaði um hálfsannleik og mig langar að spyrja hvort það geti verið að hálfsannleikur felist m.a. í því að velja sér álitsgjafa til að vitna til. Ég tók eftir því að hv. þingmaður vitnaði hvorki til orða Eyjólfs Ármannssonar né Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara sem hefur komið hér fram og talað með nokkuð öðrum hætti, svo sem eins og fleiri hafa gert, en þeir tveir eða þrír aðilar sem hv. þingmaður nefndi til sögunnar.

Spurningin er, hv. þingmaður: Er þetta hálfsannleikur? Mig langar til að biðja hv. þingmann um að fara með mér yfir hvað það var sem Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kom með nestaður inn á fund utanríkismálanefndar og varaði þar við þeirri vegferð sem menn eru á. Ég bið hv. þingmann að lýsa því fyrir mér og öðrum hvort orð hans og hvort orð Stefáns Más og Friðriks Árna um að réttast væri að fara með málið inn í sameiginlegu nefndina séu fleipur eitt, hvort 102. gr. samningsins um að álitamál fari fyrir sameiginlegu nefndina eigi ekki við eða hvort við eigum ekki að láta reyna á hana, hvort hv. þingmaður treysti ekki EES-samningnum öllum, öndvert því sem við Miðflokksmenn gerum. Við treystum EES-samningnum öllum, ekki bara frá 0 upp í 100 heldur t.d. 102 líka.

Þetta langar mig til að hv. þingmaður fari aðeins yfir með okkur. Fyrir utan það væri ég náttúrlega þakklátur þingmanninum fyrir að benda á hvenær við Miðflokksmenn lugum í þessari umræðu.