149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:16]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Ég átta mig ekki á því, herra forseti, hvort verið er að spyrja um orkuverð í öðrum löndum en hér á landi. Ég verð þá bara að svara því til að raforkuverð hér á landi snýst auðvitað annars vegar um flutningsgjaldið, þ.e. tengigjaldið, og svo hins vegar verð fyrir hverja kílóvattstund, megavattstundir í tilviki stóriðju. Verðmyndun í stóriðjunni fer fram með samningum þar sem við höfum náð tiltölulega ágætum árangri núna í allra síðustu samningum.

Til almennra neytenda ræðst þetta fyrst og fremst af samkeppni þessara örfáu, ekki nema fimm smásöluaðila, getum við kallað þá. Hvernig það gerist nákvæmlega get ég ekki svarað því að ég hef ekki þekkingu á því að útskýra hvernig samkeppnin virkar. En þetta er alla vega verðmyndunin sjálf.

Í Noregi fer þetta hins vegar eftir framboði og eftirspurn í Evrópu vegna samtengingar og vegna stöðu innan lands á raforkumarkaði í Noregi þar sem m.a. skiptir mjög miklu máli vegna (Forseti hringir.) árstíða hvort lón eru hálffull eða full og annað slíkt. Þar eru bókstaflega árstíðaskipti á raforkuverði.