149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, hef ekki gert það. Reyndar fékk ég tækifæri nýlega til að greiða atkvæði um það í flokknum mínum og ég greiddi atkvæði gegn því, rökstuddi þá ákvörðun í frekar ítarlegu máli og gerði það einnig hér. Ég er á móti því að setja þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst hins vegar að kjósendur eigi að hafa réttinn á að ákveða það sjálfir. Og ég bendi einnig á að þetta ákall (Gripið fram í.) sem ég fjallaði um í ræðu minni (Gripið fram í.) hefur ekki heyrst. Það hefur ekki komið ákall um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst það merki um að við getum treyst kjósendum aðeins betur en kannski hv. þingmaður gerir til þess að taka hugsanlega ekki arfavitlausar ákvarðanir. (KÓP: Ekki gera mér upp skoðanir.) Nei, við ræðum þetta yfir kaffibolla á eftir, hv. þingmaður.

Ég get ekki útlistað fyrir hv. þingmanni nákvæmlega hvað gerist í samskiptum Noregs og Íslands í kjölfar þess að við stígum þarna aðeins á tærnar á þeim, sem við myndum vissulega gera með því að hafna þessu. Það er alveg víst að það færi aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er víst að við værum að stíga á tærnar á Norðmönnum. Það er víst að þeir yrðu svolítið pirraðir út í okkur (Forseti hringir.) og ekki alveg víst hvernig við myndum semja okkur út úr því. Ég veit ekki hvernig þessir hlutir myndu enda, (Forseti hringir.) en ég veit hverjar hætturnar eru og treysti mér fullkomlega til að eiga það samtal við kjósendur ef þeir myndu kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál eða eitthvert annað.