149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður misskilur orðið andsvar. Þegar farið er í andsvar við hv. þingmann er ætlast til þess að hún veiti svör en spyrji ekki fyrirspyrjanda spurninga. Þannig að mig langar enn þá til að ítreka við hana — og ég vona að ég fái líka tækifæri til að tala við aðstoðarmann hv. þingmanns hér síðar í umræðunni — og ánýja spurninguna um hvað það sé við 102. gr. EES-samningsins sem er ekki í gildi eða ekki nógu traust að hennar dómi.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann hvort hún og hugsanlega stjórnarmeirihlutinn allur sé hræddur við það sem er kallað pólitísk óvissa. Maður nokkur sem kom í sumar, fyrir 8 millj. kr. plús ferðakostnað, og heitir prófessor dr. Carl Baudenbacher, kom hérna eiginlega til að hræða okkur á Grýlu, sagði að við ættum að samþykkja þessa upptöku fyrir Norðmenn og til að baka okkur ekki reiði Evrópusambandsins. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi ráð ekki 8 millj. kr. virði. Ég skal bara viðurkenna það fúslega.

Ég spyr: Hvað er það sem við eigum að vera hrædd við við pólitíska óvissu? Höfum við ekki verið að takast á við pólitíska óvissu allan lýðveldistímann? Erum við ekki að takast á við pólitíska óvissu? Er það ekki verkefni okkar stjórnmálamanna að gera það? Hún er mismikil. En af hverju þessi ótti? Og af hverju eru menn hræddir við það að treysta öllum EES-samningnum? Við í Miðflokknum treystum honum, öllum samningnum, ekki bara frá 0 upp í 100 heldur líka 102. gr. Því spyr ég: Hvað er svona ískyggilegt og ómerkilegt við 102. gr.? Hvað er svona ískyggilegt og óttalegt (Forseti hringir.) við það að hér verði pólitísk óvissa? Til þess erum við kjörin að takast á við slíkt.