149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Já, ég get fullyrt það að staða okkar Íslendinga er mun betri eftir orkupakka eitt, orkupakka tvö og vonandi núna eftir að þessi samningur verður samþykktur, orkupakki þrjú. Síðan kemur næsti pakki og það er ekki orkupakki fjögur, heldur er það hreinorkupakki. Alveg frá upphafi með einmitt orkupakka eitt og orkupakka tvö, og núna fylgir orkupakki þrjú því eftir, er verið að gera auknar kröfur til fyrirtækja, m.a. framleiðenda raftækja, til að koma með umhverfisvænni vörur. Það er í þágu neytenda. Eða er kannski umhverfisvernd ekki í orðabók Miðflokksins, að gera skýrar kröfur til fyrirtækja, hvernig þau standa að því að búa til raftæki, hvernig þau koma vörunni sem er raforkan sem slík á markað? Allt þetta er gert m.a. í þágu umhverfisverndar, ekki gleyma þeirri breytu.

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir, að Evrópusambandið sé að banna niðurgreiðslu á raforku. (BirgÞ: Víst.) Nei, (BirgÞ: Það er það.) nei. Mér skilst að á árinu 2009, ég er ekki búin að reikna það upp, hafi verið milljarður í niðurgreiðslu. Er það bannað? Við skulum bara fara í fjárlögin. Það er ekki bannað. Þetta er enn ein fullyrðingin sem er sett fram til þess að grafa undan staðreyndum í tengslum við þriðja orkupakkann.

Ég undirstrika að það skiptir máli að við skoðum heildina. Það er verið að tryggja raforkuöryggi, raforkuflutningsöryggi. Það er verið að tryggja að upplýsingar verði sterkari og, já, það er í þágu íslenskra neytenda að við fáum fram hvað stórnotendur, hvort sem það eru álfyrirtækin eða aðrir stórnotendur, hafa greitt fyrir raforkuna úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar í gegnum tíðina. Það var annað þá. Það er hægt að skilja það mjög vel þegar til að mynda álverið í Straumsvík var sett á laggirnar, en í dag eru einfaldlega aðrir tímar. Við eigum ekki að láta raforkustefnu Íslands fram í tímann mótast af gamalli nálgun og gömlum hugsunarhætti. Við viljum opnun, við viljum gagnsæi og við viljum upplýsingar. Það er í þágu neytenda.