149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Enn á ný heyrum við frá þeim sem styðja þetta mál málflutning sem á ekki við rök að styðjast. Ég sagði hér, hv. þingmaður, að orkupakki eitt bannaði sérsamninga, þ.e. niðurgreiðslu á rafmagni, ekki niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar almennt en alla sérsamninga. Á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja voru heimili sem nutu sérsamninga. Þessi tilskipun gerði það að verkum að þeir voru bannaðir og það gerði að verkum að raforkuverð hækkaði um 74–90% hjá þeim heimilum. Er það neytendaverndin sem hv. þingmaður er svona ánægður með? Ég spyr.

Ég hvet hv. þingmann til að lesa vandaða skýrslu Orkunnar okkar. Á bls. 41 er kafli um efnahagsleg áhrif og þýðingu orkupakka þrjú. Þar kemur margt mjög fróðlegt fram, m.a. um hækkun á raforkuverði. (Forseti hringir.) Þetta er staðreynd, hv. þingmaður, sem þú getur ekki hrakið. Raforkuverð á Íslandi hefur hækkað eftir innleiðingu orkupakka eitt og tvö, (Forseti hringir.) 10% við innleiðinguna 2003, (Forseti hringir.) að raunvirði 78% til dagsins í dag.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk, þau eru í gildi.)