149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það gleður mig mjög að við skulum a.m.k. komast að því samkomulagi að við séum ekki fylgitungl eins eða neins.

Hvað lýtur að því sem fram undan er í sambandi við orkumálin, orkupakka eitt, tvö og þrjú, orkupakka fjögur um orkumálin okkar og orkupakka fimm sem verður um vatnið okkar, þá segi ég bara: Erum við að tala um þessa mæla? Það er ekki margt sem við Íslendingar í okkar útkjálka og landfræðilegu stöðu getum státað af sem sérstöðu okkar en raforkan er eitt af því. Ég segi því fyrir mína parta að ég er alls ekki inni á þeirri línu að fara að setja upp mæla í hvert einasta hús, eins og orkupakki fjögur boðar, sem ákveða að við verðum að þvo klukkan fjögur á nóttunni til að reyna að borga ódýrara rafmagn og annað slíkt. Ég er engan veginn inni á þeirri línu, hv. þingmaður. Ég ætla ekki að halda því fram að við, þótt við getum gengið á undan með góðu fordæmi á margan hátt, munum geta gert meira en það sem ég vil sjá, (Forseti hringir.) að reyna að nýta orkuna sem mest í eigin þágu. Það er það sem ég sé.