149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum aðilar að EES-samningnum. Með því að verða aðilar að EES-samningnum undirgöngumst við ákveðið vinnulag. Eins og ég nefndi áðan er þriðji orkupakkinn búinn að vera til meðferðar í þinginu síðan 2010, þegar hann kom fyrst á borðið. Næsta vetur verður hinn svokallaði hreinorkupakki til meðferðar í þinginu.

Við getum auðvitað, og það hef ég margoft sagt í ræðustól, gert betur í því hvernig við höldum á málum þegar kemur að EES-innleiðingum. Ég hef setið marga fundi og rætt þau mál ítarlega, t.d. við innleiðingu fjármálaregluverksins sem ég nefndi áðan og tel að flestu leyti efnislega gott en hafði áhyggjur af stjórnskipulegum álitaefnum. En það skiptir máli að við séum og verðum hér í þinginu þegar málin eru til umræðu á réttum tíma. Það eru vissulega leikreglur EES-samningsins. Við getum haft skoðanir á því hvort okkur finnist þær góðar eða slæmar en þannig hefur þetta kerfi virkað. Við þurfum þá bara að ræða hvernig við vinnum samkvæmt því (Forseti hringir.) og hvort við erum sátt við það. Ég held við getum gert ýmislegt betur í því.