149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Stutta svarið byggist á því að innleiða ekki reglurnar réttilega og fara ekki eftir þeim. Það er þannig sem skaðabótakrafa skapast, að menn fara ekki eftir samningum eða lögum og reglum. (Gripið fram í.) Ef við innleiðum þessa orkutilskipun Evrópusambandsins erum við skuldbundin. Ef það eru einhver lög hér sem við setjum, sem þið kallið fyrirvara sem hægt er að finna einhvers staðar, og þau fara í bága við regluverkið er það að engu hafandi. Við erum að spyrja um það og það er ykkar að svara. Það er ekki okkar að svara. (SilG: Hlusta þá.) Þið eigið að svara spurningum okkar. Það er ekki mitt að svara því hvað þið eruð að spyrja um. Ég er að spyrja: Hvar eru lagalegu fyrirvararnir? Og síðast en ekki síst: Hvaða gildi hafa þeir þjóðréttarlega? (SilG: Hlusta.) Það er ykkar að svara og svarið hefur ekki komið við þessari spurningu. (Gripið fram í: Sérfræðingarnir hafa …) Og það er ekki bara ég sem spyr, þjóðin öll spyr þessarar spurningar: Hver er staða Íslands?

Þið hafið ekki staðið ykkur í því að útskýra þetta mál fyrir þjóðinni, þið hafið ekki staðið ykkur í því. Það á að keyra málið í gegn, það á að setja undir sig hausinn, vaða í gegnum málið og ekki útskýra þetta fullnægjandi fyrir þjóðinni. (Gripið fram í.) Þið hafið ekki útskýrt fyrir okkur hvert gildi lagalega fyrirvarans er að þjóðarétti. Þið hafið ekki gert það. (SilG: Vínarsamningurinn. Hlusta.)