149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér kemur ekkert á óvart spurningin í ljósi þess að þingmaður Miðflokksins og flestir þingmenn hans hafa snúið út úr öllum staðreyndum sem hér hafa verið settar á borð. Spurningin um af hverju höfum snúið frá einhverju þegar við höfum akkúrat ekki snúið frá einhverju kemur mér því ekkert á óvart.

Ég sagði í ræðu minni að við hefðum staldrað við fyrir ári, síðasta haust, vegna þess að við höfðum áhyggjur af því að það yrði að vera tryggt að nákvæmlega það sem stendur í þessari ágætu ályktun frá miðstjórnarfundi Framsóknarmanna, sem var haldinn að Smyrlabjörgum, síðasta haust stæðist. Það gerir hún og ég ætla að enda á því að svara hv. þingmanni með því að vísa í þá sérfræðinga sem þingmenn Miðflokksins hafa oftast notað sem skálkaskjól í sínu máli, þá Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst, í bréfi sem þeir sendu frá sér eftir heimsókn sína til utanríkismálanefndar, með leyfi forseta:

„Séu fyrirliggjandi skjöl lesin saman, þ.e.a.s. þingsályktunartillaga utanríkisráðherra og þingsályktunartillaga ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk lagafrumvarpa hins síðarnefnda, ásamt greinargerðum og öðrum gögnum, teljum við að fyrirvörunum sé þar réttilega haldið til haga“, með öðrum orðum að þeim ákvörðunum og ályktunum sem við Framsóknarmenn samþykktum við á miðstjórnarfundi höfum við haldið til haga alla leið og ætlum að klára.