149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að sú afstaða hæstv. ráðherra komi fram hér að orkupakki þrjú bæti þar engu í. Ég er sammála því að auðvitað þurfa fyrirtæki eins og þessi að sækja fram á alþjóðavísu og ég reikna ekki með að hæstv. ráðherra sé að ýja að því að staðlaðar merkingar, CE-merkingar og annað slíkt, séu í neinu uppnámi verði þriðji orkupakkinn ekki innleiddur.

Þetta er einmitt seinna andsvar mitt sem mig langar að nýta í það að spyrja hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, formann Framsóknarflokksins — sem fór í fyrra svari sínu svo ágætlega yfir mikilvægi alþjóðasamninga og þess að fyrirtæki geti olnbogað sig innan þeirra samninga sem við erum aðilar að — hvernig sú kvöð sem íslensk stjórnvöld undirgangast með innleiðingu þriðja orkupakkans rímar við það sjónarmið að hafa fulla stjórn á flutningi yfir landamæri þegar það er orðað þannig í hluta af pakkanum að við göngumst undir það að ryðja úr vegi pólitískum og tæknilegum hindrunum fyrir flutningi orku yfir landamæri. Hvað þýðir sú klásúla í orkupakkanum í huga hæstv. ráðherra, að við undirgöngumst það að ryðja úr vegi tæknilegum og pólitískum hindrunum við flutning raforku yfir landamæri?