149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við verðum eiginlega að endurtaka spurninguna um stöðu okkar gagnvart EES-samningnum sem slíkum, hvernig hæstv. ráðherra telur að við séum í stakk búin að takast á við samninginn, hvort þetta sé ekki tvíhliða samningur, gagnkvæmur samningur þar sem við erum algjörlega með sama rétt og hver annar og hvort það sé einhver ástæða til að bíða með að láta reyna á hvort tillit verði tekið til sérstöðu okkar. Mig langar sérstaklega til að vísa til þess sem hæstv. ráðherra sagði í þessum ræðustóli í apríl í fyrra: Hvað liggur mönnum á að koma okkur undir boðvaldið í Brussel?

Þetta er orkupakki þrjú og sá fjórði er á borðinu og fimmti á leiðinni. Ég vil spyrja að þessu: Er það ekki nákvæmlega þangað sem við erum að stefna? Er það ekki meginmarkmið samningsins að við komum okkur á sameiginlegan innri markað? Og hvernig er þá hægt að líta á það að EES-samningurinn haldi vatni gagnvart því að við segjumst vera að innleiða einhverja gerð? Við erum að taka inn þriðja orkupakkann og segjumst vera að innleiða hann en við erum ekki innleiða hann. Hann virkjast ekki. Hvernig í veröldinni er hægt að líta á það? Ég verð að viðurkenna algjöran vanmátt minn gagnvart því að þetta er orðið svo ringlað og ruglað, þessu er snúið svoleiðis að mér finnst ég stundum standa á höndum og er ég ekki með vaxtarlagið til þess. Maður upplifir það þannig oft og tíðum að skilja hvorki upp né niður. Hvernig er verið að reyna að nálgast málið þegar meginmarkmiðið er sameiginlegur innri raforkumarkaður í Evrópu og EES-samningurinn og staða okkar gagnvart honum?