149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Hafa stjórnarliðar ekki meira til þessa máls að leggja en að halda áfram að hjakka í þessu fari, að þeir séu í raun að gera þetta vegna þess að einhverjir hafi haft einhverja skoðun fyrir einhverjum árum?

Það er ýmislegt búið að koma í ljós um þennan þriðja orkupakka sem ég tók nú varla eftir og held að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki gert heldur á sínum tíma. Hann var í sömu ríkisstjórn og ekki heyrði málið undir hann frekar en mig.

Síðan þá hefur fjölmargt komið í ljós um eðli og innihald þessa pakka og sá fjórði hefur meira að segja bæst við. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur lýst afstöðu sinni sem byggist á fyrirliggjandi gögnum núna. Það er heldur ekki rétt að gefa til kynna að málið hafi klárast í þinglegri meðferð eða verið svo gott sem búið, sama hversu margar blaðsíður hæstv. ráðherra fann í skjalasafninu þegar við tók nýr ráðherra. Það liggur fyrir mjög afdráttarlaust og upplýsandi minnisblað frá þeim utanríkisráðherra sem tók við þar sem lýst er hver verði raunveruleg áhrif þessa orkupakka. Og það eru áhrif sem menn hafa lengst af í þessari umræðu þrætt fyrir, áhrif sem fela ekki hvað síst í sér eftirgjöf á valdi yfir orkumálum.

Þegar það liggur fyrir, þegar sú grundvallarstaðreynd liggur fyrir, hljóta menn nú að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að draga í land.

Það eina sem stendur eftir er að við erum með ríkisstjórn, og stjórnarsamstöðu hennar, sem er búin að ákveða að setja undir sig hausinn og klára þetta mál, sama hvað kemur í ljós, og hefur ekki betri rök fyrir því en að útskýra að málið sé tíu ára gamalt og hafi verið svo lengi í vinnslu að þess vegna verði þau að klára það núna.