149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:08]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get auðvitað ekki annað sagt en að manni þykir vænt um að fyrrverandi flokksmenn beri hag flokksins fyrir brjósti og baklandsins. En ég vil líka nefna að bakland flokksins er með ýmsum hætti og það er stuðningur efnislega við málið. Og af því að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi að svo þyrfti pólitíska forystu segi ég: Já, hún er hér. Að hluta til snýst þetta mál nefnilega ekki bara efnislega um þriðja orkupakkann og það sjá allir. Þetta snýst um stærra samhengi, þ.e. EES-samninginn, kosti hans og galla, hvernig við getum svo tekið dýpri umræðu um hvernig staða hans er og hvað hann hefur gert fyrir okkur og annað slíkt. Þetta snýst líka um að taka slaginn þegar rangfærslur eru hafðar uppi um mál aftur og aftur. (Gripið fram í: Hverjar?) Þetta er mál þar sem skiptir máli, eins og alltaf, hvað satt er en ekki aðeins hvað sagt er.

Hér er spurt úr sal: Hvað rangfærslur? Ja, til að mynda um skyldusæstreng, brot á stjórnarskrá, afsal á auðlindum, valdframsal til Evrópustofnana. Allt þetta eru rangfærslur. Það er ekki rétt að það sé skylda að leggja sæstreng. Það er ekki rétt að við séum að afsala okkur forræði yfir auðlindum. Það er ekki rétt. Það er ekki hluti af innleiðingu á þriðja orkupakkanum. (Gripið fram í.)