149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu í dag. Ég tek undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að sumar hverjar ræðurnar voru innihaldslausar og í frasakenndu formi þar sem orðin bull og þjóðernispopúlismi o.s.frv. komu oft fram. Það er miður í svo mikilvægu máli sem þessu.

Ég tók sérstaklega eftir því að hæstv. fjármálaráðherra minntist á það að við yrðum og værum að undirgangast samningsskuldbindingar. Það væri kjarni málsins varðandi þessa innleiðingu, samningsskuldbindingar. Þá spyr maður sig: Er eitthvað óeðlilegt við að fara eftir samningi sem við erum skuldbundin? Þá á ég við EES-samninginn vegna þess að það er hluti af honum að geta vísað ágreiningsmálum til ákveðinnar nefndar sem er kölluð sameiginlega EES-nefndin þar sem er úrskurðað og menn geta þá komið með rök fyrir því hvers vegna eins og í þessu tilfelli við eigum ekki að innleiða þessa raforkutilskipun, vegna þess að við eigum ekkert sameiginlegt með Evrópusambandinu þegar kemur að raforkumálum. Ég held að það viti það nú flestir.

Auk þess var áhugavert að heyra eina fullyrðingu frá hæstv. sveitarstjórnar- og samgönguráðherra. Hann sagði, og þá átti hann við Miðflokksmenn og Miðflokkinn, að það væri verið að efna til ófriðar við þjóðina með þessu máli. Ég held að þetta séu hrein öfugmæli vegna þess að um 70% þjóðarinnar eru á móti því að innleiða þriðja orkupakkann. Þar liggur ófriðurinn við þjóðina, að stjórnvöld, ríkisstjórnarflokkarnir, eru að þröngva þessu máli í gegnum Alþingi í mikilli óþökk við meiri hluta eða 70% þjóðarinnar, eins og kannanir hafa sýnt. Málflutningur þess efnis að við Miðflokksmenn, sem erum á móti þessari innleiðingu og höfum rökstutt það ágætlega, séum að efna til ófriðar við þjóðina, eru náttúrlega ummæli sem eru ekki svaraverð og eiga ekki að heyrast frá hæstv. ráðherra sem vill láta taka sig alvarlega.

Auk þess var líka áhugavert að heyra fullyrðingar frá hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þar sem hún talaði um að bæta hag neytenda, orkupakki þrjú væri hluti af því að bæta hag neytenda og að undirgangast þennan sameiginlega orkumarkað Evrópusambandsins væri til að bæta hag neytenda. Þá eigum við að sjálfsögðu að skoða það hvort orkupakki eitt og orkupakki tvö hafi yfir höfuð bætt hag neytenda, vegna þess að orkupakki þrjú kemur síðan í framhaldinu og væntanlega á hann líka að bæta hag neytenda.

En hver er raunin og reynslan af orkupakka eitt og tvö þegar kemur að því að bæta hag neytenda? Jú, þegar málið var til umræðu á sínum tíma og innleiðingin er gerð 2003 á orkupakka eitt, þá var mönnum náttúrlega talin trú um það og þingmönnum að í málinu fælist neytendavernd. Og hver er á móti neytendavernd? Það er enginn á móti neytendavernd. En hver var niðurstaðan? Hún var sú að raforkuverð hækkaði við orkupakka eitt og orkupakka tvö. Uppskipting á orkufyrirtækjunum í framleiðslu og dreifingu hafði í för með sér kostnað og þegar orkupakki eitt var innleiddur varð strax 10% hækkun á raforkuverði til heimila landsins og núna hafa verið gerðar athuganir á því að á raunvirði hefur raforkuverð síðan þá hækkað um 7–8% til viðbótar.

Við sjáum að það sem hér hefur verið sagt eru einfaldlega fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast. Alvarleiki þessa máls er að það er verið að keyra málið í gegn í óþökk þjóðarinnar.(Forseti hringir.) Við Miðflokksmenn höfum haldið uppi málefnalegum (Forseti hringir.) málflutningi þess efnis að það sé óskynsamlegt fyrir þjóðina að leggja í (Forseti hringir.) þá óvissuferð að samþykkja orkupakka þrjú.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)