149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:10]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að inna þingmanninn eftir viðtali sem ég heyrði á Bylgjunni 16. ágúst sl. Í því viðtali kom fram að það væri enginn formlegur lagalegur fyrirvari settur vegna orkupakka þrjú, það væri engin staðfesting til.

Það hefur verið tínt til að það er sameiginleg yfirlýsing orkumálastjóra ESB og utanríkisráðherra, yfirlýsing EFTA-ríkjanna en það er ekki til neinn formlegur lagalegur fyrirvari. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því.

Einnig hefur komið fram að erlendir aðilar munu hafa veruleg áhrif á nýtingu, skipulag og ráðstöfun á orkuauðlindum okkar. Þetta kemur fram í áliti Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. Þeir segja að skapast geti samningsbrotamál, það kemur fram á bls. 35 í neðanmálsgrein 62.

Svo ég fari aftur í viðtalið á Bylgjunni 16. ágúst sl. þá virtist hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar ekki vita af því og spurði hv. þm. Ólaf Ísleifsson, sem einnig var með í viðtalinu, hvar hann hefði fundið þetta.

Ég spyr hv. þingmann: Tekur hún ekki mark á því sem þarna er sagt, sérstaklega þar sem það virtist vera þannig að hún hafi ekki gert sér grein fyrir þessu fyrir svo stuttu síðan?