149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru fjölmargar spurningar. Ég ætla að reyna að ná yfir þær allar. Varðandi spurninguna sem kom fram í fyrra andsvari hv. þingmanns um að við værum að afsala okkur yfirráðum yfir auðlindum okkar þá er það algerlega fjarri sanni. Það er einnig algjörlega fáránlegt að gera athugasemd við það að ég kannist ekki við orðalag í skýrslu þegar tekin er upp ein setning úr 70 blaðsíðna skýrslu eða svo og henni slengt fram án nokkurra röksemda þar í kring eða í samhengi við það sem þar er skrifað. Það er alveg ljóst að niðurstaðan þess hvert framsalið er á aðeins við ef við erum tengd. Ef við tökum ákvörðun sjálf um að tengjast þá gilda ákveðnar reglur um sameiginlegan markað, auðvitað þurfa að gilda ákveðnar leikreglur ef við tökum einhvern tíma þá ákvörðun að tengjast. En ég hef ekki áhyggjur af því framsali, líkt og kom fram hjá fjölda sérfræðinga fyrir nefndinni. Eins og er skrifað í skjölin og hefur margoft verið sagt verður það endurskoðað ef þetta kemur einhvern tímann til álita. En það er ekki til álita akkúrat núna.

Ég hef enga áhyggjur af samningsbrotamálinu af því af því við erum að innleiða málið rétt. Við erum að taka upp allt sem gildir um okkur. Það leiðir af hlutarins eðli, eins og flestir sérfræðingarnir komust að, að ákveðinn hluti orkupakkans gildi ekki um okkur af því að við erum ekki tengd. Það er staðreynd.

Sú spurning hvort ég sé fylgjandi sæstreng er ekkert uppi í dag. Ég veit ekki hverjir hagsmunir Íslands verða í framtíðinni og ætla ekki að ákveða það fyrir framtíðarþing ef sá tími rennur einhvern tímann upp. Ég tel hins vegar afar ólíklegt að það verði einhvern tíma spurning í þessum sal. Tækninni vindur svo hratt fram og þetta er það löng leið. Þetta er það djúpt. Þetta er það kostnaðarsamt. (Forseti hringir.) Ég gæti talað lengi áfram. Ég efast um að þetta verði einhvern tímann spurning og ætla ekki að taka ákvörðun fyrir framtíðarþingmenn sem munu starfa í þessum sal. (Forseti hringir.)

Hvað varðar seinni spurningunni hef ég ekki áhyggjur af því enda er þriðji orkupakkinn almennt góður fyrir neytendur og ég styð virkari samkeppnismarkað á Íslandi.