149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[10:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma í að elta ólar við það sem hér er vitnað í í álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más. Það er orðið dálítið hvimleitt hvernig hv. þingmenn Miðflokksins og fleiri skrumskæla þá álitsgerð og fara algjörlega fram hjá lokaniðurstöðu þeirra kumpána, bara eins og þeim hentar. Mér finnst þetta sannast sagna ekki mjög virðingarverð meðferð á gögnum frá sérfræðingum.

Hins vegar er fullt af pólitískum álitamálum í þessu minnihlutaáliti sem er vert að ræða og ágætisgrundvöllur til að skiptast á skoðunum um það. Í álitinu kemur fram að minni hlutinn sé á móti og óttist þessa hækkun á raforkueftirlitsgjaldinu. Staðreyndin er sú að það er tap af raforkueftirlitinu í dag. Telur hv. þingmaður að við eigum að reka það raforkueftirlit með tapi? Og þessi umrædda hækkun þýðir að hver kílóvattstund fyrir raforku sem er mötuð inn á flutningskerfið hækkar um 0,18 aura. (Forseti hringir.) Þykir hv. þingmanni það of mikil hækkun eða finnst honum að við eigum að halda áfram að niðurgreiða raforkueftirlitið úr ríkiskassanum?