149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Mér finnst mikilvægt að það komi fram nákvæmlega hvað þessi mál öll þýða. Sjálfur ætla ég að láta stjórnarskrána njóta vafans í orkupakkamálinu sjálfu og mun þar af leiðandi ekki greiða atkvæði með því, ég mun greiða atkvæði á móti þar, en það hef ég gert og ég hef rætt þetta við þingmenn Miðflokksins, m.a. hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, þegar ég gagnrýndi og sagði að þeir yrðu að láta stjórnarskrána njóta vafans á þarsíðasta eða þarþarsíðasta kjörtímabili — þau eru búin að vera svo mörg upp á síðkastið — þannig að ég læt stjórnarskrána njóta vafans ef mér er bent á hann. Það sem þarf að gera aftur á móti er að breyta því hvernig við ákveðum að vera í alþjóðasamstarfi með valdframsalinu þannig að ekki sé vafi með stjórnarskrána og það sé alveg kýrskýrt hvað það er. En það er svo margt í stjórnarskránni okkar sem núna er vafa undirorpið.

Varðandi nákvæmlega þetta mál sem við erum að ræða núna og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson mælti fyrir erum við að tala um fyrirvarann. Ég kom seint inn í nefndina í þessu máli, skipti yfir úr atvinnuveganefnd, en er búinn að spyrja um fyrirvarann og ég skil ekki fyrirvarann öðruvísi en það sem stendur: „… ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis.“

Treystirðu kannski ekki Alþingi? En síðan segir: „… það samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir við slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.“

Það er ekki hægt að fara af stað með sæstrenginn nema Alþingi samþykki.

Það er hægt að stunda málþóf á Alþingi til þess að koma í veg fyrir að Alþingi samþykki. Ef þetta er samþykkt er búið að tryggja að það er hægt að stunda málþóf ef Alþingi ætlar að heimila sæstreng. Er þetta ekki alveg skýrt? Þetta er þingsályktun. Þetta er fest í lög. Alþingi verður að samþykkja og sama hvort það er í gegnum lög eða þingsályktun er hægt að stunda málþóf.

Þarna sjáum við hvort menn eru tilbúnir þegar málin eru svona skýr til að vera málefnalegir. Orkan okkar vill ekki senda inn erindi um að þessi þáttur sé góður og Miðflokksmenn hafa ekki talað vel um þetta mál. Nú skulum við sjá í umræðunni í dag hvort Miðflokksmenn eru (Forseti hringir.) tilbúnir að gangast við því að fyrirvarinn skapi að lágmarki tækifæri fyrir málþóf á Alþingi til að stöðva að sæstrengur verði lagður. Það verður ekki farið af stað með hann nema Alþingi samþykki.