149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Til þess að þetta grautist ekki saman sem það virðist gera í þessari umræðu — fjórði orkupakkinn grautast inn í þann þriðja og fyrsti og annar grautist inn í þann þriðja — og til að við höldum þriðja orkupakkanum skýrum vil ég nefna að þriðji orkupakkinn er þingsályktunartillaga sem var tekin fyrir í utanríkismálanefnd og var rædd hér í gær. Nú erum við með þrjú mál. Þau voru tekin fyrir í atvinnuveganefnd. Fyrsta málið varðar sjálfstæði Orkustofnunar. Mælt hefur verið fyrir því, bæði minni hluti og meiri hluti. Það var gert hér rétt áðan. Svo mælti Njáll Trausti Friðbertsson fyrir meirihlutaáliti með þingsályktunartillögu, sem er fyrirvari. Svo er það fjórða málið — hv. þm. Ólafur Ísleifsson ræddi um það og grautaði öllu saman, en við verðum að aðskilja þetta — sem er lagafrumvarp um að festa þingsályktunartillöguna í lög um stefnumótunina. Þau tvö mál sem við erum byrjuð að ræða svolítið saman um eru fyrirvarar, annars vegar í formi þingsályktunartillögu um að ekki verði lagður sæstrengur nema Alþingi komi að, sem þýðir að málþófsréttur Alþingis virkjast ef menn ætla að fara að leggja sæstreng. Það sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson var að tala um núna er lagafrumvarp um að það skuli festa þessa þingsályktun, um aðkomu Alþingis ef það á að fara að leggja sæstreng, inn í lögin. Það er verið að gera hvort tveggja. Þetta er tvöfaldur fyrirvari þarna í formi þingsályktunar og lagafrumvarps, sem verður fest í lög, sem þýðir að sæstrengur verður ekki lagður nema Alþingi komi að því.

Fólk treystir kannski ekki Alþingi og ég skil það mjög vel. Að mörgu leyti treystir fólki ekkert Alþingi. Ég tala ekki um þegar stórir hagsmunir eru undir þá treystir fullt af fólki ekki Alþingi. Með þessum frumvörpum er verið að festa í lög — ég er í andsvari við hv. þm. Ólaf Ísleifsson, ég vona að hann sé ekki að fara burtu; nei, hann er kominn aftur — að Alþingi verði að hafa aðkomu að því máli. Ef menn ætla að leggja sæstreng er búið að festa það í þingsályktun og lög að Alþingi verði að hafa aðkomu að því, áður en sæstrengurinn er lagður. Er þingmaðurinn þá ekki bara tilbúinn til að koma hingað upp í ræðustól og stunda málþóf gegn áformum um að leggja sæstreng? Hann fær þá heimild með þessum frumvörpum og þessari þingsályktun.