149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get sagt það skýrt og skorinort að ég hef aldrei haldið því fram að innleiðing þriðja orkupakkans væri samasemmerki með lagningu sæstrengs. Það er af og frá. Ég tel Ísland enn fullvalda ríki. Það sem ég hef hins vegar bent á er að það er langt frá því að vera hafið yfir allan vafa að við gætum bakað okkur skaðabótaskyldu. Það hef ég talað um og það er ekki bara ég, það eru líka sérfræðingar, m.a. dómarar, hæstaréttarlögmenn og prófessorar í lögum, sem segja að það sé langt frá því að vera hafið yfir allan vafa. Við byggjum líka á þrískiptingu ríkisvalds og einn anginn heitir dómsvald. Öllum þeim sem hagsmuna hafa að gæta og eru ekki sáttir við úrlausn sinna mála gagnvart ríkisvaldinu er í lófa lagið að leita réttinda sinna fyrir óvilhöllum dómstólum.

Ég er ekki burðug til að standa hér og ætla að taka af skarið um að íslenska ríkið gæti ekki bakað sér skaðabótaskyldu með því að vera bundið þjóðréttarlegum samningum, t.d. EES-samningnum, þar sem við höfum ekki á neinum tímapunkti skilgreint orkuna sem sérstaka vöru með sérstöku eðli heldur er hún bara vara. Það hefur líka komið fram á fundi fjárlaganefndar, þar var fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu sem sagði einfaldlega: Íslenska ríkinu er samkvæmt EES-samningnum óheimilt að hamla flæði vöru inn á innri markaðinn. Á meðan við erum ekki búin að skilgreina raforkuna sem vöru sérstaks eðlis get ég ekki séð að hún falli ekki almennt undir hugtakið vara, samanber EES-samninginn. Ég hef aldrei nokkurn tíma haldið því fram að innleiðing þriðja orkupakkans væri samasemmerki með því að hér væri kominn sæstrengur svo það sé sagt.