149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Noregur er auðvitað á öðrum stað en við. Noregur er á meginlandinu og nýtir sér sameiginlegan orkumarkað. Þeir selja frá sér orku og kaupa á móti og eru undir öðrum hatti en við sem erum ekki tengd orkumarkaði Evrópu. Ég tel að það eitt og sér skipti miklu máli í þessu sambandi, að Noregur er aðili að sameiginlegum orkumarkaði Evrópu. Ég held að það sé stóra málið í þessu samhengi og á þeim forsendum geta komið upp ýmis mál sem geta verið erfiðari úrlausnar hjá þeim en hjá okkur sem erum ekki tengd markaðnum. Þar liggur okkar sérstaða.

Varðandi þá fyrirvara sem hér eru gerðir og hvort þeir standist til framtíðar, við vitum að orkumálastjóri Evrópu og Evrópusambandið, stjórnsýslan þar, veit af þessum fyrirvörum. Við höfum fengið okkar færustu sérfræðinga til að fara yfir þá fyrirvara. En það er eins og allt, ég treysti að þessir fyrirvarar haldi, þ.e. sá hluti þriðja orkupakkans sem lýtur að því að við séum aðilar að sameiginlegu markaðssvæði Evrópu, raforkumarkaði, að réttarlegt gildi hans tekur ekki gildi meðan við erum ekki aðilar að sameiginlegu markaðssvæði Evrópu. Ég er alveg pollróleg yfir því að það haldi.

En eins og ég sagði í ræðu minni verður bara að reyna á það ef upp koma einhver mál sem menn telja að þeir ætli að fara fram með málsókn á hendur okkur Íslendingum og vísa til þess að við erum sjálfstæð þjóð (Forseti hringir.) með okkar dómstóla.