149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir hans ágætu ræðu og sömuleiðis vil ég þakka honum góð orð undir lokin. Þau eru mikils metin.

Ég vil ekki lengja þessa umræðu, herra forseti, en ég vil beina sams konar fyrirspurn til hv. þingmanns eins og ég gerði í dag þegar ég hafði tækifæri til að inna hv. þm. Sigríði Á. Andersen eftir afstöðu hennar og þá núna hv. þingmanns til þeirra viðhorfa sem fram hafa komið hjá æðstu forystusveit Sjálfstæðisflokksins, þ.e. hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, hæstv. iðnaðarráðherra.

Þá kem ég að efninu. Í mjög athyglisverðri ræðu sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra flutti í gær, yfirgripsmikil, gjörhugsuð og athyglisverð, segir hæstv. ráðherra efnislega að hann telji okkur óhætt að fara fyrir sameiginlegu nefndina án þess að það hafi þær afleiðingar sem sumir hafa lýst hér með sterkum orðum og hann segir að ef teldi hann þörf á því að gera það myndi hann gera það. Hæstv. iðnaðarráðherra lýsti í dag sams konar afstöðu og sama gerði í svari við andsvari frá mér hv. þm. Sigríður Á. Andersen.

Nú spyr ég hv. þingmann: Tekur hv. þingmaður (Forseti hringir.) undir þau sjónarmið æðstu forystumanna og áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum?