150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kemur pólitíkin alveg í hnotskurn. Ég segi einmitt: Nei, við getum ekki valið fyrir fram hvaða leið við ætlum að fara. Það er það sem ég er að benda á, að við giskum á það fyrir fram að þetta sé betri leiðin án þess að hafa nokkur gögn fyrir því. Þegar gögnin koma getum við séð það og sagt: Nei, fyrirgefið, hin leiðin er eiginlega betri miðað við allar þær forsendur sem við náum að skoða. Við verðum aldrei hárnákvæm, það er bara gefið. Við búum í breytilegu samfélagi sem hreyfist á ógnarhraða þannig að hlutirnir breytast tvímælalaust fram og til baka en við reynum að taka bestu ákvarðanir byggðar á bestu gögnum hverju sinni. Það getur verið rétt að þessi leið sé góð núna en eftir fimm ár verður hún ekki góð lengur. Það er ýmislegt annað sem getur gerst í millitíðinni. Þetta er pólitíkin sem ég er að reyna að forðast, pólitíkin að giska á það fyrir fram, áður en ég fæ upplýsingarnar, hvaða leið er best. Það eru þessi gömlu stjórnmál (Forseti hringir.) sem ég tel að við eigum að forðast og þess vegna skiptir hægri og vinstri ekki máli í framtíðinni heldur gagnadrifin ákvarðanataka.