150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir framsögu hans. Ég vildi aðeins ræða við hv. þingmann um skatteftirlit. Nú er í frumvarpinu á bls. 119 gert ráð fyrir 200 millj. kr. til aukins skatteftirlits. Síðan kemur fram að það eigi að skila um 250 milljónum kr. í ríkissjóð umfram kostnað. En nú hefur það verið kynnt fyrir okkur, m.a. var það kynnt fyrir fjárlaganefnd á sínum tíma, að umfang skattsvika gæti verið allt að 100 milljarðar. Það kemur fram í skýrslu frá því í júní 2017.

Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér? Hvernig getum við tekið á þeim vanda, sem er náttúrlega gríðarlegur? 250 milljónir eru bara smáaurar miðað við umfang skattsvika sem kemur fram í skýrslunni. (Forseti hringir.) Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hv. þingmanni hvað hann sér fyrir sér, hvernig við getum bætt þau mál.