150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hreint út sagt gáttuð á því sem kom fram í máli hv. þingmanns, um að hún fái allt aðra þjónustu eftir að hún varð alþingismaður. Ég veit það ekki, kynnir hv. þingmaður sig alltaf sem alþingismann þegar hún sækir sér þjónustu? Það er hægt að gera hlutina á marga vegu en mín reynsla er sú að þeir sem starfa í okkar opinberu kerfum eru faglegir og hvort sem þeir kannast við nafnið manns eða ekki veita þeir manni þá þjónustu sem maður á rétt á. Þar breytir engu hvaða titil maður hefur.

Ég ætla ekki að detta niður í það að fara að þræta um það hver er mesti öryrkinn hér inni eða hefur verið það lengst. Það skiptir einfaldlega engu máli. Þetta er ekki keppni í því hver hefur lifað við einhver kjör í hvað lengstan tíma, heldur snýst þetta um það að við erum að forgangsraða fjármunum inn í samfélagið og það er mikilvægt að fólk með alls konar þekkingu (Forseti hringir.) og alls konar reynslu komi að málum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)