150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Okkur greinir á um vaxtalækkunina. Ég held þvert á móti að það sé ekki bara fyrir ábyrga kjarasamninga, ábyrga lífskjarasamninga með aðkomu ríkisstjórnarinnar heldur sé ábyrg ríkisfjármálastefna einnig algjört grundvallaratriði til að þetta vinni saman. Ég sé sterkar vísbendingar um það. Ég held að ef við göngum of langt þegar við skoðum aðhaldsstig ríkisfjármála hafi það mikið að segja.

Að opinberri fjárfestingu. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að horfa til þess hvert við setjum fjármunina. Við erum að ná vopnum okkar, skulum við segja, í opinberri fjárfestingu. Illu heilli þurftum við að fara í sársaukafullar aðgerðir á því sviði sem öðrum í kjölfarið á hruninu. En nú er skellurinn, niðursveiflan, á framboðshliðina. Ef við horfum á þjóðhagsjöfnunina (Forseti hringir.) hafa margar af þeim aðgerðum sem við sjáum hér kannski áhrif á eftirspurnarhliðina. Og hv. þingmaður þekkir það að vægi tilfærslukerfanna (Forseti hringir.) er að aukast í heildarútgjöldum þannig að við erum alltaf í minni og minni færum. Þetta er eitthvað sem er verkefni inn í framtíðina fyrir okkur (Forseti hringir.) í fjárlaganefnd, í þinginu og fyrir ríkisstjórnir að horfa á það jafnvægi.