150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður verðum bara að vera ósammála um ábyrgð ríkisfjármálanna. Stefna þessarar ríkisstjórnar hefur verið að eyða öllum þeim krónum sem hún hefur komist yfir. Ríkisfjármálin voru þensluhvetjandi og gagnrýnd fyrir það 2018. Svo datt hagkerfið undan ríkisfjármálunum og skyndilega er í lagi að þau séu örvandi. Ég segi bara: Það er í góðu lagi á þessum tímapunkti að ríkisfjármálin séu örvandi, það er mikilvægt að þeim sé beint í réttan farveg, til að örva fjárfestingu. Ef ekki núna, hvenær þá? Við getum ekki endalaust búið við það að fjárfestingarstigið sé langt undir langtímameðaltali, langt undir þörf og síðan þegar réttir úr kútnum verður enn eina ferðina, líkt og eftir síðasta hrun, ekki svigrúm til þess að auka fjárfestingu. Hvenær ætlum við að fara að vinna á fjárfestingarskuldinni, þeirri innviðaskuld sem við stöndum frammi fyrir? Það er orðið löngu tímabært og þetta væri rakinn tímapunktur til þess. Þess vegna hryggir það mig að sjá ekki meiri áherslu á fjárfestingar í fjárlagafrumvarpinu en raun ber vitni.