150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir hans andsvar. Hann gaf mér tækifæri til að ræða um kolefnisgjöld og orkuskipti sem ég vildi gjarnan taka þátt í meiri umræðu um. Ég vil bara segja: Við höfum stigið þetta skref, að leggja skatt á þá sem eru að menga, og ég geri ekki athugasemdir við það því að inni í því eiga að felast hvatar til þess að við förum betur með það sem við erum að nota, í þessu tilfelli jarðefnaeldsneyti, og finnum aðrar lausnir þegar heimili og fyrirtæki fara að hagræða í sínum rekstri.

Það er áhugavert sem hv. þingmaður nefnir, og ég þekki ágætlega af störfum í hv. fjárlaganefnd, að umhverfisráðuneytið gat ekki dregið upp úr hatti sínum hverju það hefði skilað að hækka þessi kolefnisgjöld. Ég vil hins vegar draga það fram hér í umræðunni að á vegum Orkusjóðs og aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum hafa verið veittir verulegir fjármunir til að styrkja uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir ökutæki. Í fyrra voru það 200 milljónir. Á þessu ári er verið að leggja lokahönd á að úthluta öðrum 200 milljónum. Þannig að þéttni hleðslustöðva, af því að hv. þingmaður nefndi samgöngur á landsbyggðinni, er nú í fyrstu skrefum að verða slík að það er algjörlega og fullkomlega raunhæfur möguleiki að ferðast allt í kringum landið og milli flestra byggðarlaga á rafknúnum ökutækjum. Og Orkusjóður mun á næstu vikum birta úthlutun þessa árs þar sem enn er verið að þétta þetta net.

Ég ætla bara að segja að mér kom á óvart sá mikli áhugi sem birtist í umsóknum á því að setja upp þessi tæki og setja upp þessar stöðvar, sem eykur aftur bjartsýni mína á að orkuskipti í samgöngum geti gengið tiltölulega hratt og vel fyrir sig.

En hins vegar ætla ég að svara hv. þingmanni um áhyggjur hans af landbúnaði þannig til að við bíðum enn eftir rafknúnum dráttarvélum.